Flýtilyklar
Aðeins ein jörð
Aðeins ein jörð
Ljóð eftir Ómar Ragnarsson flutt á Gálgahraunstónleikunum í síðustu viku.
AÐEINS EIN JÖRÐ
Aðeins eins jörð.
Það er ekki´um fleiri´að ræða.
Takmörkuð er á alla lund
uppspretta lífsins gæða.
Aðeins ein jörð.
Á henni plágur mæða;
rányrkja grimm, sem örbirgð hlýst af
með eyðingu´og stríðið skæða,
flóðin, sem byggðir færa í kaf
er fárviðri um löndin næða.
Aðeins ein jörð.
Um hana stormar næða.
Auðlindir þverra ef að þeim er sótt
aðeins til þess að græða.
Aðeins ein jörð.
Afglapasporin hræða.
Lögmálið grimma lemur og slær
og lætur ei að sér hæða:
Ef deyðir þú jörðina deyðir hún þig
og deyjandi mun þér blæða.
Aðeins ein jörð
samt alla mun fæða´og klæða
ef um hana standa viljum vörð,
vernda´hana og lif hennar glæða, -
elska þessa einu jörð, -
það er ekki um fleiri að ræða.