Flýtilyklar
Frelsi og ábyrgðarkennd
Frelsi og ábyrgðarkennd
Ábyrgðarkenndin dofnar í samfélagi þeirra sem trúa að allt bjargist þótt þeir standi sig ekki. Sá sem verður of góðu vanur verður firringunni að bráð. Ábyrgð og frelsi klæðir heiðarlegar manneskjur vel.
Ábyrgð er framandi hugtak fyrir þá sem ofmeta eigið frelsi. Ofsafengið frelsi, skefjalaust frelsi, takmarkalaust frelsi, ?ég vil fá að gera það sem ég vil, enginn hefur rétt til að hindra áform mín,? segir hinn ábyrgðarlausi.
Frelsi og afstæðishyggja eru ekki gott par. Verðleikar annarra þurrkast út, einnig greinarmunurinn á réttu og röngu, góðu og vondu og náttúru og borg.
Afstæðishyggja er að sumu leyti afstöðuleysi. Manneskja getur verið umburðalynd, hún getur verið víðsýn en það vegur ekki þungt nema hún taki sér einnig stöðu með lífinu. Afstöðuleysið er firring, skortur á mannúð.
Heiðarleg manneskja lýsir því ekki yfir að allt sé afstætt, því það er samhljómur milli hugsjóna og athafna í lífi hennar. Hún vill opið og gagnsætt samfélag. Afstæðishyggjumaður vill ekki ramma sem þvingar, aðeins frelsi án marka. Frelsi án afleiðinga fyrir hann sjálfan. Það er afstaðan ? þegar allt kemur til alls.
Frelsi til og frá, frelsi fram og aftur blindgötuna ... en frelsi án kærleika er einskis virði, frelsi án ábyrgðar en innantómt og hættulegt. Frelsi í huga hins skammsýna er ekki vænlegt. Og ekki heldur nauðsynlega í huga hins framsýna.
Frelsið er foss, frelsið er jökulá en þegar það flæðir yfir bakka sína eyðileggur það umhverfið sitt.
Frelsi felst í mætti hugans til að losna úr viðjum vanans. Það veitir ímyndunaraflinu kraft til að skapa ný tækifæri án þess að brjóta á öðrum. Frelsi er gjöf andans og launin eru þakklæti gagnvart lífinu.
Ábyrgð felst í því að nema hlutdeild sína í samfélaginu. Enginn verður fullþroska fyrr en hann skynjar samábyrgð sína til að vinna góð verk og koma í veg fyrir sundrungu. Ábyrgðin birtist í samstöðu þjóðarinnar gegn óréttlæti.
Lífið í landinu er boðhlaup og hver kynslóð heldur á keflinu hverju sinni, tók við því og réttir það fram til næstu kynslóðar. Ábyrgðin flest í því að bregðast ekki. Sá sem hleypur og hugsar ?Þetta reddast?, skortir næmni fyrir samhengi hlutanna.
Skammsýn þjóð trúir að allt muni reddast. Hún er ístöðulaus og fljótfær. Hinn skammsýni er snöggur að samþykkja og framkvæma ? en hann verður oft skák og mát.
Ábyrgð og frelsi þarfnast víðsýni og tíma. Víðsýnt viðhorf hægir á tímanum, ellefta stundin rennur ekki upp og kapphlaupið við tímann rennur sitt skeið. Betri tími gefst til að ala upp börn, kanna kringumstæður, meta gögn, meiri tími til að íhuga fortíðina og nútíðina, hyggja að náttúruauðlindum, næstu kynslóðum, hlýnun jarðar af mannavöldum og hvað skapi hamingju og hvað ekki.
Ef ábyrgð og frelsi tengjast nánum böndum skapast rúm fyrir yfirvegun, stöðugleika og víðskyggni.
Gunnar Hersveinn, www.lifsgildin.is