Umsögn um Reykjanesskaga og forsendur rammaáætlunar frá Framtíðarlandinu

Umsögn um Reykjanesskaga og forsendur rammaáætlunar frá Framtíðarlandinu

Ómar Ragnarsson sendi fyrir hönd Framtíðarlandsins umsögn um Reykjanesskaga og forsendur rammaáætlunar til atvinnuveganefndar Alþingis, en nefndin heldur utan um rammaáætlun um vernd og nýtingu náttúrusvæða með áherslu á vatnsafl og jarðhitasvæði.

Umsögnina er að finna hér fyrir neðan og einnig í pdf-skjali.

Umsögn um Reykjanesskaga og forsendur rammaáætlunar

Í neðangreindri umsögn er leitast við það afdráttarlaust og án tæpitungu að líta á virkjanir á utanverðum Reykjanesskaga í víðu samhengi við rammaáætlun í heild. Einnig að benda á hliðstæðu á Norðausturlandi og nauðsyn þess að taka grunnhugsun rammaáætlunar til rækilegrar endurskoðunar .

Áberandi er hvernig verndun er fyrir borð borin á Reykjanessskaga miðað við aðra hluta landsins, og eru ósnortin náttúruverðmæti skagans stórlega vanmetin svo að stefnir í óefni og stórfellt umhverfisslys.

Samkvæmt áætluninni fara aðeins 3 hugsanleg virkjanasvæði af 19 á skaganum í verndarflokk og 11 er búið að virkja eða á að virkja.

5, sem fara eiga í biðflokk, breyta litlu um heildarmyndina eftir að búið verður að breyta Reykjanesfólkvangi í virkjanasvæði og gera allan Reykjanesskagann að nær samfelldu virkjanasvæði með stöðvarhúsum, skiljuhúsum, borholum, gufuleiðslum og vegum og njörva þetta allt síðan inn í net af möstrum og háspennulínum.

Fólkvangur skagans fer verst út úr þessu auk fleiri friðaðra svæða.

Á bak við þessi áform er síbyljulygin um endurnýjanlega og hreina orka sjálfbærrar þróunar þegar verið er að gylla þessi áform bæði innanlands og utan þótt fyrir liggi að í forsendum þessara virkjana er aðeins gert ráð fyrir 50 ára endingu orkunnar og að óleyst eru vandamál mengunar, affallsvatns og manngerðra jarðskjálfta.

Þessar virkjanir eru í hrópandi ósamræmi við skuldbindingar Íslendinga samkvæmt Ríósáttmálanum um að framkvæmdir standist kröfur sjálfbærrar þróunar.

Í staðinn er hér stefnt að stórfelldri rányrkju orkunnar, þótt fyrir liggi sú skoðun vísindamanna að hægt sé að nálgast nýtingu sem feli í sér að orkan sé  endurnýjanleg til frambúðar.

Þegar Guðmundur Pálmason lagði línurnar um þetta fyrir næstum 40 árum átti virkjun háhitasvæða að felast í því að fara rólega í sakirnar og fullvissa sig á hverjum tíma um að orkan entist og væri trygg.

Þetta er í samræmi við það sem þeir Guðni Axelsson og Ólafur Flóvenz héldu fram í Morgunblaðsgreinum þess efnis að hægt væri að nálgast sjálfbæra þróun endurnýjanlegrar orku með því að láta öflunina á hverjum tíma vera í samræmi við sífelldar rannsóknir og reynslu þannig að orkuvinnslan yrði minnkuð í samræmi við reynsluna til þess að fá hana til að endast.

Bragi Árnason rannsakaði í sínum tíma innstreymi inn í jarðhitageyma á Nesjavalla- Hellisheiðarsvæðinu og taldi líklegt, að þegar búið væri að klára orkuna þyrfti minnst tvöfalt lengri tíma til þess að svæðið jafnaði sig.

Það benti til þess að annað hvort yrði að fara þrefalt vægar í sakirnar til að orkan entist eða að taka aðeins fyrir þriðjung alls svæðisins í einu hverju sinni, færa síðan orkuöflunina á annan þriðjung svæðisins þegar fyrsti þriðjungurinn væri kláraður og þannig koll af kolli.

Samkvæmt þessu er orkuöflun á þessu svæði þegar komin fram yfir þessi mörk og nýjar virkjanir þar munu ekki nægja til að þar verði um endurnýjanlega orku að ræða til lengri tíma litið.

Samkvæmt þessu er sú grundvallar orkustefna á Reykjanesskaga kolröng að selja alla fáanlega rányrkjuorku skagans fyrirfram, helst til eins stórs aðila fyrirfram og gefa dauðann og djöfulinn í það hverju afkomendur okkar muni þurfa að standa frammi fyrir eftir 50 eða jafnvel aðeins 30 ár, eins og hæglega getur orðið raunin með Eldvarpa- og Svartsengisvirkjun.

Að þessu leyti eru forsendur rammáætlunar varðandi þetta svæði rangar og þar með fyrir rammaáætlun í heild, því að þessi orkustefna mun setja rammaáætlunina alla í uppnám í framtíðinni, þegar virkja yrði annars staðar á landinu til þess að bæta upp orkuþurrðina á suðvesturhorninu.

Því er brýnt að taka grunnhugsun nýtingar háhitaorku til gagngerrar endurskoðunar og setja sem flestar virkjanahugmyndir í að minnsta kosti biðflokk meðan það yrði gert.

Sumar virkjanahugmyndirnar sem nú fara í orkunýtingarflokk, svo sem  Eldvarpavirkjun eru sláandi dæmi um þetta.

Virkjun Eldvarpa felur í sér tvöfaldan glæp:

Í fyrsta lagi yrðu hún og Svartsengisvirkjun yrðu með sameiginlegan jarðhitageymi og því myndi virkjun Eldvarpa flýta því um helming að orkan yrði kláruð og ending jarðvarmans því allt að helmingi styttri en þó er búið að stefna að og er algerlega óábyrg orkunýtingarstefna. (Sjá sérstaka umsögn um Eldvörp)

Í annan stað eru Eldvörp gígaröð og þarf að fara alla leið austur að Lakagígum til að finna hliðstæðu.

Gígaraðir og móbergshryggir er hvergi að finna í heiminum nema hér á landi og heldur ekki það fyrirbæri að eldfjallahryggur á flekaskilum heimsálfa liggi upp á land þar sem gígaröð á sprungu er í beinu framhaldi.

En með Eldvarpavirkjun og öðrum virkjunum vestan Kleifarvatns á einmitt að ráðast á þessi fyrirbæri, sem eru einkennandi fyrir það að Ísland hefur orðið til á flekaskilum tveggja heimsálfa og á engan jafnoka í veröldinni að þessu leyti.

Að hrifsa til sín orkuna í ofstopagræðgi frá afkomendum okkar og eyðileggja í leiðinni fyrir þeim einstök náttúruverðmæti er siðlaust athæfi, sem mun verða núlifandi Íslendingum til ævarandi skammar, ekki síst vegna þess að stanslaust er logið til um hið raunverulega eðli þessa máls.

Á þessu fyrirhugaða virkjanasvæði og öðrum í Reykjanesfólkvangi væri hægt að gera stórbrotinn eldfjallagarð ósnortinnar náttúru ekki síðri en eldfjallagarðinn á Hawai sem lokkar til sín þrjár milljónir ferðamanna um margfalt lengri og erfiðari veg.

Þessi íslensku náttúruundur eru aðeins spölkorn frá aðal alþjóðaflugvelli landsins og mesta þéttbýli þess og eru mun verðmætari en skammlífar virkjanir, bæði fyrir dýrmæta ímynd lands og þjóðar og tekjumöguleika af þeim til frambúðar.

Við Eldvörp er til dæmis að finna ónýtta möguleika til að upplifa einstæða náttúru landsins og lífsbaráttu fyrri kynslóða. (Sjá umsögn um Eldvörp.)

Ósnortin náttúra og umhverfi, saga fyrri kynslóða og hvernig þær lifðu af (survival) eru eftirsótt atriði fyrir ferðafólk ekkert síður en hið tilbúna og líkast til skammlífa Bláa lón .

Þetta leiðir hugann að Mývatni. Jafnvel daglega er greint frá því sem sjálfsögðum hlut að gera 90 megavatta virkjun í Bjarnarflagi og þrítugfalda núverandi orkuöflun þar fyrir stóriðju á Bakka.

Frá Bjarnarflagi hallar landi beint til Mývatns, sem er aðeins í fjögurra kílómetra fjarlægð. Nú þegar rennur óstöðvandi affallsvatn frá þessari litlu virkjun í átt til vatnsins og hefur gruggað vatnið í Grjótagjá.

Menn virðast alveg tilbúnir að spila áhættuspil með þá einstæðu blöndu jarðminja og lífríkis, sem Mývatn er, þótt vandamál með affallsvatn hafi hvergi verið leyst og tilraunirnar við Hellisheiðarvirkjun hafi skapað ónæði og tjón hjá Hvergerðingum í 15 kílómetra fjarlægð.

Niðurdæling við Mývatn yrði í þrefalt minni fjarlægð og við Bláa lónið nánast í hlaðvarpanum.

Engin bitastæð úttekt hefur verið gerð á því hvert gildi Eldfjallagarðs á Reykjanesskaganum hafi fjárhagslega og ímyndarlega fyrir þjóðina í samanburði við að nánast allt eigi að virkja.

Þetta eitt ætti að nægja til að virkjanirnar vestan Kleifarvatns fari að minnsta kosti í biðflokk þangað til allar upplýsingar liggi fyrir.

Í staðinn virðist nú stefnt að því að gera útreið Reykjanesskagans að vegvísi í þeirri vegferð að einstæð ósnortin náttúruverðmæti lendi í ruslflokki og verði umturnað, þeim og þjóðinni til ævarandi skammar.

Og til að bíta höfuðið af skömminni á að stunda stórfellda rányrkju á þessari auðlind.

Kynslóðir munu um ókomnar aldir
undrast að þetta gat gerst,
að gimsteinar sem voru gersemar taldir
guldu hér afhroðið mest.
Ómetanlegum auðæfum landsins
á altari skammgróðans brennt
og svæði til yndis og unaðar mannsins
í úlfskjaft græðginnar hent.

Reykjavík  7. maí 2012.
Unnið fyrir Framtíðarlandið.
Ómar Þ. Ragnarsson


Svæði

  • Facebook
  • Vimeo
  • Soundcloud
  • RSS
moya