Umsögn um Eldvarpavirkjun frá Framtíðarlandinu

Umsögn um Eldvarpavirkjun frá Framtíðarlandinu

Ómar Ragnarsson sendi fyrir hönd Framtíðarlandsins umsögn um Eldvarpavirkjun til atvinnuveganefndar Alþingis, en nefndin heldur utan um rammaáætlun um vernd og nýtingu náttúrusvæða með áherslu á vatnsafl og jarðhitasvæði.

Umsögnina er að finna hér fyrir neðan og einnig í pdf-skjali.

Frekari upplýsingar um virkjunarhugmyndir í Eldvörpum er að finna á Náttúrukortinu.

Umsögn um virkjun í Eldvörpum

Gígaraðir er fyrirbrigði sem setur einna mestan svip á hið einstæða heimsundur sem hinn eldvirki hluti Íslands er, enda er hvergi í öðrum löndum að  finna svona gígaraðir og einnig móbergshryggi, en þeir eru gígaraðir sem mynduðust undir jökli.

Þetta eru verðmætar minjar um eldgos á gossprungum, sem myndast hafa vegna reks meginlandanna.

Eldvörp eru gígaröð þess eðlis að búar á Suðvesturlandi finna enga slíka gígaröð nema að fara alla leið austur að Lakagígum, því báðar gígaraðirnar hafa myndast löngu eftir að ísöld lauk, gagnstætt því sem er um flestar gígaraðir á Íslandi.

Lakagígar eru að vísu fleiri, stórbrotnari og fjölbreyttari en á móti kemur að Eldvörp eru í næsta nágrenni við helsta alþjóðaflugvöll landsins og mesta þéttbýlið.

Veit ég ekki um annan fjölfarinn alþjóðaflugvöll þar sem slík náttúruundur eru í hlaðvarpanum.

Eldvörp liggja í línu við eina staðinn í heiminum þar sem eldfjallahryggur á flekaskilum meginlanda, sem rekur hvort frá öðru, gengur á land.

Bæði varðandi ferðaþjónustu þar sem flesta ferðamenn er að finna og umhverfis- og orkunýtingarlega séð er það ávinningur að ekki þurfi að fara lengra til að njóta magnaðs umhverfis eins og er að finna í Eldvörpum og nágrenni þeirra.

Í Sundvörðuhrauni, skammt sunnan við Eldvörp, hafa fundist sérkennilegar rústir af hlaðinni kofaröð sem hefur verið falin undir hraunbrún.

Má leiða af því líkur að hún hafi verið hlaðin af fólki, sem flýði frá Grindavík undan alsírskum sjóræningjum í Tyrkjaráninu 1627.

Svonefndur Árnastígur, þekkt gönguleið frá fyrri tíð, liggur frá suðaustri til norðvestur framhjá norðurenda Eldvarpa, en á þeim stíg, sem markaður er á stórum köflum í sléttar hraunhellur, geta ferðamenn upplifað það umhverfi sem vermenn og aðrir fóru eftir á milli staða yst á Reykjanesskaganum.

Vaxandi markhópur ferðamanna sækist eftir ósnortinni náttúru og því að kynnast kjörum fyrri kynslóða í glímu við óblíðar aðstæður (survival) og á þessu svæði væri hægt að búa til slíkt umhverfi og sýna vermenn og aðra ganga eða ríða eftir Árnastíg eða setja upp leiksýningu þar sem sýndur væri flótti Grindvíkinga undan sjóræningjunum í Tyrkjaráninu.

Alveg er óunnin sú vinna, sem þyrfti að fara fram til að leggja mat á þá möguleika sem þetta gefur.

Slíka upplifun er ekki hægt að öðlast í návígi við blásandi borholur, gufuleiðslur og vegi rétt hjá stöðvarhúsi, skiljuhúsi, háspennumöstrum og raflínum.

Flestir ferðamenn, sem koma til Íslands, leita eftir ósnortinni náttúru og víðernum.

Slíkt umhverfi, einstætt á heimsvísu er enn hægt að finna á Eldvarpasvæðinu á meðan því er ekki raskað meira en orðið er.

Svæðið er tiltölulega lítið þekkt og vegna nálægðar við alþjóðaflugvöllinn og mesta þéttbýli landsins eru þar vannýttir möguleikar til ?verndarnýtingar? sem skilað gæti mun meiri verðmætum en orkunýting.

Enn fráleitara er að gera þetta að orkunýtingarsvæði með jarðvarmavirkjun af þeim sökum að Svartsengi og Eldvörp hafa sameiginlegan jarðitageymi að mati jarðfræðinga.

Af tilgreindum gögnum frá Guðmundi Pálmsyni og Jónasi Ketilssyni um mat á jarðvarma og vinnslugetu, eðli og sjálfbærni nýtingu hans, má ráða, að Eldvarpavirkjun myndi einungis flýta fyrir því að tæma alla orku úr sameiginlegum jarðvarmageymi Svartsengis og Eldvarpa.

Jarðhitageymirinn, sem um ræðir, er talinn vera 1000 metra djúpur og hefur yfirborð hans þegar lækkað um 300 metra samkvæmt tölum þar um frá HS orku.

Það þýðir, gróflega áætlað, að í stað þess að tæma geyminn eftir 50 ára notkun, eins og gert var ráð fyrir í forsendum virkjana þarna, yrði geymirinn tæmdur mun hraðar, á ca 30 árum.

Orkusölusamningar eru yfirleitt gerðir til lengri tíma en það, þannig að eftir 30 ár myndu menn sitja uppi með rangt arðsemismat og líkast til tap á orkusölunni, auk þess sem svæðið yrði ónýtt, bæði til orkunýtingar og ferðamennsku.

Það yrði gróft brot gegn skuldbindingum Íslands í Ríósáttmálanum um sjálfbæra þróun og endurnýjanlega orku og í ofanálag eyðileggja eitt verðmætasta náttúrufyrirbæri Reykjanesskagans.

Niðurstaða þessarar umsagnar er því þessi: Af umhverfislegum og orkunýtingarlegum ástæðum ber hiklaust að setja Eldvörp og sem stærst umhverfi þeirra í verndarflokk eða að minnsta kosti að færa þau úr orkunýtingarflokki í biðflokk.

Reykjavík 7. maí  2011.
Unnið  fyrir Framtíðarlandið.
Ómar Þ. Ragnarsson.

Meðal gagna:

Orkustofnun 1985. Mat á jarðvarma Íslands eftir Guðmund Pálmason og fleiri.

Orkustofnun 2009.  Mat á vinnslugetu háhita eftir Jónas Ketilsson og fleiri.

Orkustofnun 2010.  Eðli jarðhitans og sjálfbær nýting hans eftir Jónas Ketilsson o.fl

Stiklur. Nær þér en þú heldur.

Gögn HS orku um jarðhitageyminn.


Svæði

  • Facebook
  • Vimeo
  • Soundcloud
  • RSS
moya