Athugasemdir vegna frummatsskýrslna um Bitruvirkjun og Hverahliðarvirkjun

Athugasemdir vegna frummatsskýrslna um Bitruvirkjun og Hverahliðarvirkjun

Skrifað af Auði Jónsdóttur 18. nóvember 2007

Skipulagsstofnun
Laugavegi 166
150 Reykjavík

Efni: Athugasemdir vegna frummatsskýrslna um Bitruvirkjun og Hverahliðarvirkjun

1.    Virkjanir Orkuveitu Reykjavíkur við Bitru og Hverahlíð eru tilkomnar vegna samnings um orkusölu til álvers við Helguvík. Sama á við stækkun Hellisheiðarvirkjunar.

Í 5.gr.laga um umhverfismat er gert ráð fyrir því að séu fleiri en ein framkvæmd á sama svæði eða framkvæmdirnar háðar hver annarri geti Skipulagsstofnun metið áhrif þeirra sameiginlega. Hvoru tveggja á sannarlega við í þessu tilviki. Allar líkur eru á að virkjanirnar séu að nýta sama jarðhitageyminn, en ekki er áætlað hver sameiginleg áhrif þeirra eru, , einungis er reynt að meta áhrifin af hverri fyrir sig.  Áhrifasvæði virkjana á loftgæði eru einnig það sama eða skarast mjög en þær eru allar staðsettar í næsta nágrenni við höfuborgarsvæðið. Ennfremur er afar hæpið að fjalla ekki um heildaráhrif framkvæmda á upplifun af landslagsheild með myndrænum hætti. Til viðbótar virkjunum  verða sjónræn áhrif af fyrirhuguðum háspennulögnum um sama svæði, hvort heldur er í strengjum eða háspennulínum.
Hér hefði því verið afar brýnt að fjalla um umhverfisáhrif sameiginlega og að það skuli ekki gert gefur villandi mynd af þeim umhverfisáhrifum sem munu verða. Það hefði verið eðlilegt að fjalla að lágmarki um framkvæmdir á Hellisheiði við stækkun Hellisheiðarvirkjunar, Bitruvirkjun og Hverahlíðarvirkjun ásamt háspennulögnum Landsnets um svæðið.
Enn æskilegra hefði verið að meta sameiginlega að auki álver við Helguvík og fyrirhugaðar virkjanir Hitaveitu Suðurnesja, (stækkun Reykjanesvirkjunar, Svartsengis og virkjanir á Krýsuvíkursvæðiðnu) og/eða aðrar þær virkjanir sem nauðsynlegar eru til að afla álverinu orku.
2.    Í frummatsskýrslum um Bitruvirkjun og Hverahlíð kemur fram að orkuvinnsla sé ?ágeng? og að bora þurfi nýja vinnsluholu á 2 ? 4 ára fresti allan rekstrartímann til að viðhalda vinnslugetu. Ennfemur kemur fram að hitalækkun á vinnslutíma sé áætluð um 10°C og allt að 1000 ár taki varmaforðann að endurnýjast. Massaforðinn endurnýjast á skemmri tíma að því er talið er en þó taki það áratugi. Áætlað er að eftir um 60 ára nýtingu svæðisins þurfi það um 60 ára hvíld. Þrátt fyrir þetta fullyrða skýrsluhöfundar að um ?sjálfbæra vinnslustefnu sé að ræða? og ?falli ágætlega að markmiðum um sjálfbæra þróun? með tilvísun til þess að vænta megi tækniþróunar í framtíðinni sem gera muni afkomendum okkar kleift að bora dýpra og nýta orkuna betur. Þá er í skýrslunni einnig tekið fram að rannsóknargögn skorti til þess að þetta mat teljist áreiðanlegt . Reynsla af öðrum svæðum er heimfærð á bæði Bitruvirkjun og Hverahlíðarvirkjun.  Ekki er nein tilraun gerð til þess að meta heildaorku sem áætla má að sé vinnanleg úr jarðhitageyminum með bestu nýtingaraðferð né heldur hversu hátt hlutfall þess megi gera ráð fyrir að nýta í fyrirhuguðum virkjunum. Rýrir það möguleika á að leggja mat á fyrirhugaða auðlindanýtingu á svæðinu.
Útilokað er að fallast á þessa túlkun á hugtakinu sjálfbær nýting ?auðlindar?. Svæðið sem dælt er úr hlýtur að verða metið á þeim forsendum hvernig jarðhitanáman sjálf er nýtt, en ekki hvort unnt sé í framtíðinni að sækja í dýpri námur ellegar að kreista meira úr því sem upp er dælt.
Jafnframt verður að gagnrýna alvarlega að ekki skuli hafa verið gerðar fullnægjandi rannsóknir áður en stærð virkjunar var ákveðin. Það hefur í för með sér alvarlega hættu á að óafturkallanleg ákvörðun sé tekin á grundvelli ófullnægjandi upplýsinga sem auðveldlega hefði mátt afla með hæfilegum undirbúningstíma.
Ennfremur kemur hvergi fram í skýrslunni svo skýrt sé hversu slaklega fyrirhugað sé að nýta orkuna sem upp úr jörðunni kemur, en fyrir liggur á öðrum vettvangi að ætlunin sé að henda á bilinu 85-90% orkunnar. Þetta fellur engan veginn að markmiðum sálfbærrar þróunar né nokkrum öðrum markmiðum um eðlilega auðlindanýtingu. Óska verður eftir úrlausnum á þessu atriði ellegar að skoða hvort ekki sé rétt að fresta virkjunarframkvæmdum uns betri nýting reynist möguleg, sérstaklega með hliðsjón af ágengri nýtingu svæðisins.

3.    Ekki liggur fyrir á þessu stigi hver verður áætluð heildarlosun vegna allrar orkuvinnslu fyrir álverið í Helguvík. Hér skortir enn á heildarmynd á losun jarðvarmavirkjananna og álversins samtals. Þó er ljóst af skýrslunum að losun frá virkjununum verður verulegt hlutfall af losun álversins sjálfs, eða um 25.000 tonn frá Hverahlíð og 31.000 tonn frá Bitruvirkjun. Að meðtalinni losun frá stækkun Hellisheiðarvirkjunar veður því losun frá þessum virkjunum alls um 85.000 tonn árlega eða um 21% losunar álversins sjálfs. Þá er enn ótalin losun í jarðgufuvirkjunum þeim sem Hitaveita Suðurnesja fyrirhugar vegna sama álvers. Jarðgufuvirkjanirnar eru undanþegnar lögum um losunarheimildir, sem í sjálfu sér er gagnrýnivert og hlýtur fyrr eða síðar að koma til endurskoðunar. Það breytir þó engu um að kostnaður samfélagsins er til staðar þar sem önnur starfsemi hlýtur með einum eða öðrum hætti að taka þennan bagga á sig og annað hvort draga úr losun á móti, afla losunarheimilda ellegar standa fyrir annars konar mótvægisaðgerðurm enda ljóst að íslenskt samfélag mun standa frammi fyrir takmörkum síminnkandi losunarheimilda. Að undanþiggja losun við raforkuframleiðslu loftslagskvótum í stað þess að kostnaður vegna þeirra komi fram í rekstrarkostnaði álversins er auðvitað ekkert annað en samfélagsleg niðurgreiðsla til stóriðjunnar.

4.    Fyrirhugað er að báðar virkjanirnar muni losa verulegt magn brennisteinsvetnis og sama á raunar einnig við um Hellisheiðarvirkjun. Ljóslega stefnir í að samanlagt muni losun frá þessum virkjunum öllum verða um 21.000 tonn árlega, en auk þess virðist mega vænta hlutfallslega enn meiri losunar frá jarðgufuvirkjunum á Krýsuvíkursvæðinu. Hér vantar enn mat á heildaáhrifum allra þeirra jarðgufuvirkjana i nágrenni borgarinnar sem fyrirhugaðar eru vegna Helguvíkur. Þó kemur fram í skýrslunni að búist er við því að einungis vegna virkjananna á Hellisheiði séu 8-16% líkur á því að klukkustundarmeðaltal brennisteinsvetnis verði það hátt innan borgarmarkanna að lykt sé merkjanleg. Þar við bætast áhrif virkjana HS. Það hljóta að teljast verulegar líkur.
Nú þegar eru fram komin ákveðin óþægindi vegna brennisteinsvetnis í borginni á ákveðnum dögum vegna losunar í fyrsta áfanga Hellisheiðarvirkjunar sem undirstrikar enn þörfina á að meta heildarmyndina. Má benda á að skv.leiðbeiningum WHO um loftgæði, (kafli 6), er bent á að til þess að forðast óþægindi vegna lyktar verði að setja mun strangari mengunarmörk en af heilsufarsástæðum. Um þetta er ekkert fjallað í skýrslunni.
Í skýrslunni segir að áhrif brennisteinslosunar verði hverfandi og það rökstutt með því að brennisteinsvetnið muni rigna fljótt niður. Ekki kemur fram í skýrslunni hver áhrif þess eru á umhverfið né hvers vegna ekki þurfi að fjalla um það.

5.    Í frummatsskýrslunum er talið að áhrif á landslag verði þó nokkur og útivistargildi svæðisins rýrni, sem og gildi þess fyrir ferðaþjónustu. Sameiginleg áhrif vegna allra framkvæmda eru talin ?talsverð eða veruleg?, en með mótvægisaðgerðum dragi úr þeim svo þau verði bara ?talsverð?. Hér verður að telja að samlegðaráhrif séu stórlega vanmetin. Ósnortnum eða lítt snortnum svæðum fækkar og þau minnka svo um munar og upplifun þeirra sem vilja njóta ósnortinnar náttúru í næsta nágrenni borgarinnar verður allt önnur. Þá er ekkert mat lagt á vaxandi gildi svæðisins í framtíðinni að þessu leyti í núll kostinum með sívaxandi fjölda ferðamanna, verðmætari frítíma og auknu vægi ósnortinnar náttúru í gildismati nútimamannsins. Þannig hefur þróunin verið undanfarin ár hérlendis og alls staðar í löndum okkar heimshluta og engin ástæða til að ætla að sú þróun stöðvist skyndilega þó að virkjanir verði byggðar á Hellisheiði.

6.    Landsnet hefur það hlutverk að annast raforkuflutning  frá virkjunum til orkukaupanda skv. raforkulögum. Þó hefði verið æskilegt að fá mat á hvaða áhrif það hefur á stöðugleika og áreiðanlega íslenska raforkukerfisins að bæta svo gríðarlega við þann flutning um kerfið og óhjákvæmilega verður með álversframkvæmdunum. Vert er að minna á að nú á fáeinum árum á að margfalda uppsett afl í íslenska raforkukerfinu vegna fáeinna álvera og er Helguvík þar á meðal. Slaki sem áður var í raforkukerfinu og áður nýttist til þess að tryggja stöðugleika þess og áreiðanleika þess hefur horfið á skömmum tíma. Má m.a. rekja tíðari truflanir í flutningskerfinu til þessara vaxtarverkja a.m.k. að hluta. Í framtíðinni má búast við auknum kröfum um frekari styrkingu raforkukerfisins en felst í þeim línulögnum sem eru beinlínis vegna tiltekinna virkjana og notanda, t.d. er þegar farið að bera á kröfum um styrkingu byggðalínuhringsins og jafnvel Sprengisandslínu. Þá er verið að ræða um aðgerðir sem eru m.a. til þess ætlaðar að endurheimta þann stöðugleika og svigrúm sem áður var. Samfélagsleg áhrif áreiðanleika raforkuafhendingar eru ótvíræð og mikil. Hefði verið full þörf á því að fjalla um þann þátt.

7.    Um núllkostinn, þ.e. að virkja ekki núna, er afar lítið fjallað í skýrslunum. Þar hefði þó verið áhugavert að sjá umfjöllun um ávöxtun auðlindarinnar í jörðu, þ.e. hvort líklegt sé að orkuverð muni fara vaxandi í framtíðinni, en til þess liggja allar spár og þá hversu mikið. Jafnframt í hverju aðrir möguleikar til orkusölu gætu falist,  jafnvel í minni einingum og á lengri tíma og hvort vænta hefði mátt hærra orkuverðs við slíka sölu eða meiri arðs af auðlindinni. Einnig væri áhugavert að sjá þjóðhagslegt mat á því hvort heppilegt sé að binda svo stóran hluta af orkuauðlindinni við langtímasamninga við álversframleiðendur eða hvort æskilegt væri að dreifa áhættunni á fleiri geira.

8.    Ekkert er fjallað um samfélagsleg áhrif framkvæmdanna á þenslu, vexti og gengi. Þó er ljóst að þær munu áfram kynda undir þá ofþenslu sem verið hefur undanfarin ár frá því að framkvæmdir við Kárahnjúkavirkjun hófust og leitt hafa til stórfelldrar hækkunar gengis og vaxta sem aðrar atvinnugreinar hafa þurft að taka á sig. Íslenskir hávextir og hágengi hafa auðvitað haft margfeldisáhrif og dregið að fjármagn í formi jöklabréfa og erlendra skulda einstaklinga og fyrirtækja til viðbótar við það sem fyrir var sem aftur hefur magnað þensluna innanlands enn frekar.

9.    Ekki er komið inn á afkomu virkjunarinnar, en þó er óhjákvæmilegt að taka eftirfarandi fram. Opinber stuðningur við virkjanirnar felst fyrst og fremst í opinberum ábyrgðum. Yfirleitt er stuðningur sem felst í slíkum ábyrgðum reiknaður sem munur á heildarávöxtunarkröfu verkefnisins með ábyrgðum og án þeirra (ávöxtun eiginfjár er hins vegar merkingarlaust hugtak í þessu samhengi). Í breskum heimildum 1,2]  er talað um að þar í landi hafi heildarávöxtunarkrafa til orkumannvirkja vaxið úr 5-8% í 14-15% eða meira þegar ríkið dró sig úr rekstrinum fyrir nokkrum árum. Hér á landi hefur heildarávöxtunarkrafan verið 5-6% í orkufjárfestingum. Ekkert liggur fyrir um að Bitruvirkjun og Hverahlíðarvirkjun geti staðið  undir þeim vöxtum sem líklegt er að farið sé fram á á frjálsum markaði og draga verður stórlega í efa að svo sé.

Ályktun Framtíðarlandsins varðandi loftgæði og mengun:

Suðvesturhornið er þéttbýlasta svæði Íslands. Hér búa 2/3 hlutar þjóðarinnar. Að staðsetja álver í Hvalfirði, Hafnarfirði og Helguvík, sem gerir þetta svæði að einhverju mesta álvinnslusvæði í heimi með tilheyrandi mengun er ekki ásættanleg framtíðarsýn nema til komi MJÖG brýnir þjóðarhagsmunir, efnahagslegir og félagslegir. Í stað þess að umhverfis höfuðborgina sé hrein og óspillt náttúrua er verið að ramma borgina inn með álbræðslum annarsvegar og hins vegar jarðvarmavirkjunum sem þjóna álbræðslu í baklandinu. Það er verið að skerða útivistarperlur og náttúrugersemar og þar með bæði andlega og líkamlega heilsu borgarbúa. Það er verið að skerða ímynd Íslands og íslenskrar jarðvarmaorku sem hingað til hefur einkum þjónað borgarbúum með mikilli og ábyrgri nýtingu á jarðvarmanum.

Við tökum undir orð hitaveitustjóra Jóhannesar Zoega í ævisögu hans sem kom út árið 2006:

?Eftir nokkra áratugi með sama háttalagi má búast við að afl virkjunarinnar fari að minnka verulega, og nokkrir áratugir eru ekki langur tími í sögu hitaveitu eða borgar. Þá slaknar á hitanum, varminn í jörðinni gengur til þurrðar. Vatnið sem streymir gegnum heit berglögin og er notað í orkuverinu ber með sér varmann úr berginu sem kólnar um leið. Ef kæling þess er örari en varmastreymið frá djúpgeymi jarðhitasvæðisins minnkar aflið smám saman. Öll sóun jarðvarmans stríðir á móti hagfræðilegum og siðferðilegum sjónarmiðum.?

Virðingarfyllst
F.h. Framtíðarlandsins
Stjórn Framtíðarlandsins
Irma Erlingsdóttir, formaður
Andri Snær Magnason
Garðar Stefánsson
Guðný Einarsdóttir
Hrund Skarphéðinsdóttir
Kjartan Rolf Árnason
María Ellingsen
Pétur Óskarsson
Viðar Þorsteinsson

1] Pollitt (1997): The Impact of Liberalization on the Performance of the Electricity Supply Industry: An International Survey, The Journal of Energy Literature, 3. árgangur, 2. tölublað

2] Thomas (2007): Recent evidence on the impact of electricity liberalisation on consumer prices, www.psiru.org.


Svæði

  • Facebook
  • Vimeo
  • Soundcloud
  • RSS
moya