Skýrsla atvinnuhóps Framtíðarlandsins um Kárahnjúka

Skýrsla atvinnuhóps Framtíðarlandsins um Kárahnjúka

Skrifað af Atvinnulífshópi Framtíðarlandsins 2. maí 2007

Var bygging Kárahnjúkavirkjunar og álvers á Reyðarfirði rétt og skynsamleg?

Í greinargerð þessari reynir Atvinnulífshópur Framtíðarlandsins að svara spurningunni um hvort bygging Kárahnjúkavirkjunar og álvers í Reyðarfirði hafi verið rétt og skynsamleg miðað við arðsemi, umhverfiskostnað, lýðræði, byggðasjónarmið og hagstjórn.

1. Arðsemi

1.1 Mjög erfitt er að sýna fram á hagnað eða tap af fjárfestingum með útreikningum svo að óyggjandi sé. Einn sér gróðamöguleika þar sem aðrir sjá þá ekki. Besti mælikvarði á arðsemi fjárfestingar er það hvort fólk er reiðubúið að setja peninga í hana af fúsum og frjálsum vilja. Á þetta reyndi undir lok 20. aldar þegar áhugi einkafjárfesta á virkjun á Austurlandi var kannaður.

1.2 Ákveðið var árið 1997 að nýjar virkjanir hér á landi yrðu einkaframkvæmdir, þ.e. án ábyrgða ríkis og sveitarfélaga. ,,Þeir sem nú eru við völd í orku- og iðnaðargeiranum vilja dreifa áhættunni, þykir ekki skynsamlegt að virkja í skjóli og á ábyrgð opinberra aðila," sagði í frétt Morgunblaðsins um málið 31. ágúst það ár.

1.3 Einkafjárfestar reyndust ekki hafa áhuga á virkjun á Austurlandi. Í viðtali við Morgunblaðið 6. desember 2001 skýrir fjármálastjóri Landsvirkjunar frá því að ,,ef Landsvirkjun ætlaði að byggja sínar framkvæmdir á fjármögnun myndi það verða til þess að orkuverðið yrði það hátt að við værum ekki lengur samkeppnisfær um stóriðju."

1.4 Fjármálastjórinn benti einnig á að á Vesturlöndum hefði ekki eitt einasta vatnsorkuver verið reist fyrir einkafjármagn í langan tíma.

1.5 Einkafjárfestar vildu ekki setja fé í Kárahnjúkavirkjun af frjálsum vilja. Ljóst virðist af því að hún stóðst ekki prófið um einkaarðsemi.

1.6 Þegar þjóðhagsleg arðsemi er fundin þarf að bæta við kostnaði af raski á náttúrunni sem virkjanir valda. Þjóðhagsleg arðsemi virkjunarinnar er enn lengra undir núlli en einkaarðsemin. Þess vegna er orka til stóriðju á Reyðarfirði niðurgreidd í reynd.

1.7 Ekki má gleyma því að Kárahnjúkavirkjun hefur komið af stað mikilli uppbyggingu á Austurlandi. Spyrja má hins vegar hvort ekki hefði mátt ná sambærilegum árangri á ódýrari hátt með almennari aðgerðum.

1.8 Skýrsla svo nefndrar eigendanefndar skipti sköpum í umræðunni um Kárahnjúkavirkjun. Þar fær aðferðafræði við virkjunina bestu einkunn, en þessum orðum er bætt við:,,.mikilvæg forsenda varðar aðgang að lánsfé og vexti af lánum, en þar nýtur Landsvirkjun þess tvímælalaust að eigendur ábyrgjast lán hennar. Augljóst er að án ábyrgðar eigenda væri fjármagnskostnaður mun hærri og hreint núvirði verkefnisins þeim mun lægra." Rask á náttúru Austurlands var ekki heldur metið til fjár. Þarna var með öðrum orðum sleppt mikilvægum kostnaðarliðum sem nú þykir sjálfsagt að hafa í slíku arðsemismati. Slík vinnubrögð eru ekki til fyrirmyndar og fráleitt að draga af skýrslunni ályktanir um arðsemi fjárfestingarinnar.

1.9 Stefnubreytinguna í orkumálum 1997 mátti rekja til álits orkunefndar iðnaðarráðherra frá 1996, en þar sagði: ,,Sterk rök hníga að því að skynsamlegt geti verið fyrir Íslendinga að fá einkafjármagn smátt og smátt inn í raforkugeirann... Þær hugmyndir sem nú eru uppi á borðinu um stóriðju kalla á nær þreföldun afkastagetu raforkukerfisins. Óvarlegt væri fyrir þjóðarbúið að taka erlend lán til að standa straum af kostnaði við uppbyggingu fjármagnsfrekra virkjana sem ekki eru þegar í burðarliðnum... Við bætist að eðlilegt að ný stóriðja og nýjar virkjanir standist arðsemiskröfur markaðarins eins og aðrar fjárfestingar." Fulltrúar allra stjórnmálaflokka, stærstu bæjarfélaga og hagsmunasamtaka auk ríkisstofnana í orkugeiranum sátu í orkunefndinni sem skilaði áliti 1996. Í ljósi þessa vekur athygli að allir studdu án fyrirvara miklar virkjanir sem ráðist var í á næstu árum þótt þær væru með fullum opinberum ábyrgðum.

1.10 Í árbókum sínum um Ísland leggur Efnahags- og framfarastofnunin, OECD, til að ríkið bjóði virkjunarleyfi út á frjálsum markaði, en setji fyrst upp lágmarksverð. Í fyrsta lagi þurfi þetta lágmarksverð að standa undir auðlindarentu (vegna annarra hugsanlegra nytja sem hafa má af orkunni) og í öðru lagi verði það að standa undir umhverfisraski sem virkjunin veldur. Sjálfsagt er að virkjanir sem lagt verður í framvegis standi undir þessum kostnaði.

1.11 Hagstæðara er að virkja fyrir stóriðju en almennan markað. Ber þar einkum til að hægt er að virkja í stærri einingum, öll framleiðslan er seld frá upphafi og jafnmikið er notað af rafmagni allan sólarhringinn. Munur á rafmagnsverði til stóriðju og almenns markaðs er þó mun meiri en þessi rök réttlæta. Færð hafa verið rök að því að almennur markaður niðurgreiði í reynd stóriðjurafmagnið. Miðað við arðsemiskröfur sem eðlilegt er að gera er stóriðjuskattur á almenna viðskiptavini Landsvirkjunar vel yfir 2 milljarðar króna á ári. Sjálfsögð krafa er að hlutlaus stofnun eins og Ríkisendurskoðun eða Samkeppniseftirlit leggi mat á það hvort raforkuverð til almenningsrafveitna er hærra en ella vegna stóriðjusamninga.

1.12 Landsvirkjun telur nú að arðsemi eiginfjár af Kárahnjúkavirkjun sé um 12% og að það sé svipað og stór orkufyrirtæki í útlöndum geri sig ánægð með. En þessi tala segir lítið. Arðsemi eiginfjár telst há vegna þess að lánsvextir eru niðurgreiddir með opinberum ábyrgðum. Miðað er við 25% eiginfjárhlutfall en 75% lánsfjárhlutfall. Fá mætti hærri arðsemi eiginfjár -miklu hærri- með því að reikna með lægra eiginfjárhlutfalli, en slíkir reikningar kæmu ekki að miklu gagni. Í reynd er allt fé til virkjunarinnar fengið að láni, en skattgreiðendur bera ábyrgð á greiðslu lánanna. Ríki og sveitarfélög sem stóðu að Kárahnjúkavirkjun hefðu eins getað tekið lán í eigin nafni og sett í virkjunina, rétt eins og þegar menn taka lán fyrir hlutafjárkaupum. Tapsáhættan er hin sama. Þess vegna er rétt að líta svo að eiginfjárhlutfall í Kárahnjúkavirkjun sé 100%. Heildararðsemi af því fé sem lagt var í virkjunina hefur verið talin 5-6%. Enginn vildi leggja fé í slíka fjárfestingu af fúsum og frjálsum vilja.

1.13 Kárahnjúkavirkjun var haustið 2006 talin kosta 115 milljarða króna (þá er umhverfiskostnaður ekki talinn með). Hún myndi varla seljast fyrir meira en 60 til 80 milljarða á frjálsum markaði miðað við líklega kröfu um ávöxtun. Mismunurinn er tap landsmanna.

1.14 Aðferðafræði við virkjanir fyrir stóriðju á Íslandi hefur ekkert breyst frá því að ákveðið var að leggja í Kárahnjúkavirkjun. Forsenda fjárfestinganna er enn sú að skattgreiðendur taka á sig áhættu af sveiflum á álverði.

2. Umhverfiskostnaður

2.1 Verðmæti lands má greina í tvennt, verðmæti frá sjónarhóli eigenda og hins vegar verðmæti frá sjónarhóli almennings. Eigandinn hefur tekjur af beit á landinu, veiði og námugrefti, leigu á landi undir sumarbústaði eða íbúðarhús. Hann hefur hins vegar engar tekjur af ýmsum öðrum landnytjum, til dæmis gönguferðum, útsýni til þess eða því þegar menn gleðjast yfir því að það skuli vera til (það eru ekki minnstu nytjarnar).

2.2 Aðeins er greitt fyrir bein eignarafnot af landinu sem fer undir Kárahnjúkavirkjun. Samningar tókust ekki við eigendur og var landið tekið eignarnámi. Eignarnám tíðkast annars ekki almennt í viðskiptum hér á landi og er erfitt að sjá af hverju orkusala Landsvirkjunar kallar á slíka aðgerð. Nýlega voru landeigendum úrskurðaðar rúmar 60 milljónir króna í bætur fyrir land sem fer undir Kárahnjúkavirkjun. Einn sérfræðingur hefur látið svo um mælt að bæturnar séu litlar, þó að aðeins sé horft á malarnám til virkjunarinnar, hvað þá önnur not. Engir tilburðir voru hafðir uppi af opinberri hálfu til þess að meta umhverfiskostnað af virkjuninni, þrátt fyrir að áhersla væri lögð á það í úrskurði Skipulagsstofnunar frá 16. ágúst 2000. Verðgildi göngulands, útsýnis og tilvistargildi landsins er því einskis metið.

2.3 Greiðsluvilji Íslendinga vegna landspjalla á Kárahnjúkasvæðinu hefur tvisvar verið metinn með viðurkenndri aðferð, skilyrtu verðmætamati. Samkvæmt öðru matinu nemur greiðsluvilji landsmanna tæpum 400 milljónum króna á ári, en í hinu er umhverfisskaðinn talinn jafngilda 2 milljarða eingreiðslu.

2.4 Auk þess er eðlilegt að Landsvirkjun greiði eigendum fyrir afnot af landi sem fer undir Hálslón og annað rask. Varlegt mat afgjalds væri 1 kr/fm/ár. Þarna er um 3.025 ha að ræða eða um 30 miljónir á ári.

2.5 Við framleiðslu 320.000 tonna áls verða til 600.000 tonn koltvísýrings eða 165.000 tonn kolefnis á ári. Sé umhverfisskattur Evrópusambands (10 Evrur/tonn) greiddur af Alcoa næmi hann 150 miljónum á ári.

2.6 Metantap Hálslóns er metið sem ígildi 20% álversins, 30 miljónir á ári (Stanford Univ., Cullenwood, 2007).

2.7 Álverið sendir frá sér 4500 tonn brennisteinstvísýrings sem kaupa þyrfti mengunarkvóta fyrir (50 Evrur/tonn), alls 20 miljónir á ári.

3. Lýðræði

3.1 Veturinn 2000 var fallið frá miðlun á Eyjabökkum en horft til Kárahnjúkavirkjunar.

3.2 Ríkisstjórnin ásamt Norsk Hydro og Landsvirkjun gaf út yfirlýsingu um stóriðjuáform þar sem Kárahnjúkavirkjun var útfærð ásamt veitu frá Jökulsá í Fljótsdal og áfangaskiptingu álverksmiðju til samræmis. Í framhaldi af því hóf Landvirkjun undirbúning að mati á umhverfisáhrifum Kárahnjúkavirkjunar.

3.3 Vorið 2001 tilkynnti Landsvirkjun framkvæmdina til Skipulagsstofnunar og lagði fram matsskýrslu á umhverfisáhrifum Kárahnjúkavirkjun allt að 750 MW. Niðurstaða matsskýrslu Landsvirkjunar var að umhverfisáhrif virkjunarinnar væru innan viðunandi marka í ljósi þess efnahagslega ávinnings sem væntanleg virkjun skilaði þjóðinni og þeirrar atvinnuþróunar sem sölu orkunnar fylgdi.

3.4 Síðla sumars 2001 kom úrskurður Skipulagsstofnunar þar sem hún lagðist gegn Kárahnjúkavirkjun vegna umtalsverðra umhverfisáhrifa og ófullnægjandi upplýsinga um einstaka þætti framkvæmdarinnar og umhverfisáhrif hennar. Stofnunin taldi upplýsingar framkvæmdaraðila ekki nægjanlegar um alla meginframkvæmdarþætti fyrirhugaðra framkvæmda til að hægt væri að segja fyrir um umfang hennar.

3.5 Úrskurði Skipulagsstofnunar má kæra til umhverfisráðherra. Meðal þeirra sem kærðu úrskurð Skipulagsstofnunar var framkvæmdaraðilinn, Landsvirkjun. Þáverandi umhverfisráðherra, Siv Friðleifsdóttir, ógilti úrskurð Skipulagsstofnunar og féllst á framkvæmdina með nokkrum skilyrðum. Rök ráðherra voru m.a. þau að ráðuneytið taldi að ekki væri heimilt að leggjast gegn framkvæmdinni nema ljóst væri eða að verulegar líkur væru á því að hún myndi hafa í för með sér veruleg óafturkræf umhverfisáhrif eða veruleg spjöll á umhverfinu.

3.6 Í kjölfarið samþykkti meirihluti Alþingis framkvæmdina með lögum þar sem Landsvirkjun var heimilt að reisa Kárahnjúkavirkjun

3.7 Meirihluti borgarfulltrúa í Reykjavíkurborg samþykkti að ábyrgjast lán Landsvirkunar vegna Kárahnjúkavirkjunar.

3.8 Síðustu ár hafa nokkrir jarðvísindamenn gagnrýnt skort á rannsóknum við undirbúning framkvæmdarinnar jafnframt því að láta í ljós efasemdir um Hálslón og áhyggjur vegna þess að Kárahnjúkastífla liggur á virku sprunguvæði.

3.9 Mikill meirihluti Alþingis samþykkti byggingu Kárahnjúkavirkjunar og samninginn við Alcoa. Einnig bentu skoðanakannanir til þess að meirihluti þjóðarinnar væri samþykkur þessari ákvörðun á þeim tíma. Þó var einnig ljóst að veruleg andstaða var gegn þessari ákvörðun og var einkum andstaða við þau miklu óafturkræfu umhverfisspjöll sem framkvæmdin olli. Þegar um óafturkræfar breytingar á náttúrunni er að ræða ber stjórnvöldum að taka meira tillit til verndurnarsjónarmiða jafnvel þótt minnihluti standi á bak við þau. Ekki er að sjá að minnihlutasjónarmið hafi verið virt þegar ákvörðun var tekin um virkjunina. Stjórnvöld brugðust einnig þeirri sjálfsögðu skyldu sinni að sýna fram á arðsemi framkvæmdanna með viðunandi hætti. Loks halda stjórnvöld leyndum upplýsingum um raforkuverð og hindraði það upplýsta umræðu um arðsemi framkvæmdarinnar.

3.10 Sú spurning vaknar hvort Alþingi eða nokkurt stjórnvald hér á landi hafi eða ætti að hafa umboð til að samþykkja stórfelldar óafturkræfar umbreytingar eða spjöll á íslenskri náttúru. Sama gildir um sölu eða afhendingu á stóru landsvæði til afnota fyrir erlenda aðila. Slík ákvörðun stangast á við það réttlæti sem ríkja ætti á milli kynslóða. Landið er ekki eign ákveðinnar kynslóðar. Aðeins ef ríkir og augljósir almannahagsmunir krefjast þess getur verið nauðsynlegt að umbreyta landinu. Engir slíkir hagsmunir voru fyrir hendi þegar ákvörðun um Kárahnjúkavirkjun var tekin.

4. Byggingaþróun og atvinnuuppbygging

4.1 Hlutverk hins opinbera í atvinnuuppbyggingu er að tryggja stöðugt efnahagsumhverfi, styrkja grunngerð og auðvelda einstaklingum á hverjum stað að uppfylla óskir sínar um menntun. Jafnframt kemur til greina að styrkja frumkvæði og sprotafyrirtæki með aðgangi að fjármagni þar sem ætla má að markaðsaðstæður takmarki framboð á fjármagni. Hið opinbera getur ekki haft beinar skyldur til að tryggja atvinnu eða að allir fái uppfylltar óskir um störf við hæfi í heimabyggð þótt sem fjölbreyttast atvinnulíf sé vissulega eftirsóknarvert í hverri atvinnusókn.

4.2 Á síðustu árum hefur einkaframtakið skapað öflugar nýjar útflutningsgreinar svo sem í fjármálaþjónustu, lyfjagerð og verslun. Jafnframt hafa miklar framfarir orðið í framleiðslu og markaðssetningu fiskaflans þar sem stór hluti framleiðslunnar er sérunnin og seldur milliliðalaust til notenda. Það er ekki hlutverk stjórnmálamanna að leggja opinbert fé í einstök fyrirtæki. Hagsagan sýnir ótvírætt að atvinnugreinar sem hafa notið sérstakrar fyrirgreiðslu og stuðnings hins opinbera hafa sjaldan þrifist vel.

4.3 Í umræðum um Kárahnjúka var þess krafist að andstæðingar framkvæmdanna svöruðu spurningunni: ?Hvað annað á að gera en framleiða raforku fyrir álver?". Þessi spurning lýsir í fyrsta lagi misskilningi á hlutverki hins opinbera í atvinnumálum og í öðru lagi vantrú á getu Austfirðinga til byggja upp atvinnulíf á eigin vegum. Rétta spurningin er: Hvað vilt þú gera sem einstaklingur? Hvaða starf vilja menn undirbúa sig fyrir í lífinu? Hið opinbera á síðan að auðvelda eins og hægt er með almennum aðgerðum að óskir manna nái fram að ganga þótt störfin séu ekki endilega í heimabyggð.

4.4 Árin 2003 og 2004 var framlag álframleiðslu til vergrar landsframleiðslu aðeins um 1,4 % að meðaltali samkvæmt framleiðsluuppgjöri Hagstofu. Fyrir utan tekjur af orkusölu sem fara að mestu í afborganir af lánum þá eru vinnulaun helstu tekjur landsmanna af álframleiðslu. Afurða- og aðfangatengslum er þannig háttað í álframleiðslu að útflutningur frá álverum bætir ekki erlenda stöðu þjóðarbúsins sem nokkru nemur.

4.5 Atvinnutækifæri og byggðaþróun hafa vegið þungt í réttlætingu stjórnvalda fyrir uppbyggingu álvera hér á landi. Með byggingu Kárahnjúka var yfir hundrað milljörðum af opinberu fé varið til að tryggja að um 400 ný störf ásamt margfeldisáhrifum yrðu til á Reyðarfirði. Hægt er að færa rök fyrir því að stjórnvöld skuli hafa bein afskipti af atvinnusköpun á krepputímum en engin þörf hefur verið fyrir slík afskipti á undanförnum árum. Samkvæmt Hagstofu fjölgaði starfandi fólki um ríflega nítján þúsund á vinnnumarkaði frá 1995 til 2005. Á þeim tíma hefur atvinnuleysi verið í lágmarki.

4.6 Ekkert bendir til að margföldunaráhrif frá álverum séu meiri en frá öðrum útflutningsgreinum. Ef tilgangurinn er eingöngu að fjölga störfum er hægt að ná sama árangri með mun minni beinni fjárfestingu heldur en að byggja orkuver sem á að selja ódýra orku til álvers (í eigu útlendinga) sem svo á að veita atvinnu í héraði.

4.7 Í þróuðum hagkerfum fer hlutfallsleg þýðing frumvinnslugreina ört minnkandi. Einkenni fraumvinnslugreina er stöðluð framleiðsla þar sem not og notandi eru ekki þekkt við upphaf framleiðslu. Verð ákveðst á heimsmarkaði og er mjög sveiflukennt. Ál- og tengd orkuframleiðsla eru hreinræktaðar frumvinnslugreinar. Í upphafi síðustu aldar var lögð mikil áhersla á frumframleiðslugreinar sem tæki til hagþróunar. Oft varð útkoman ofnýting náttúruauðlinda án hvetjandi áhrifa á afurða- eða aðfangatengsl við aðra hluta hagkerfisins. Í stað frumframleiðslugreina er efling úrvinnslu og þjónustugreina nú talin betri leið til að auka fjölbreytni í atvinnulífi og minnka hagsveiflur.

4.8 Sem dæmi má nefna að Vestfirðingar standa frammi fyrir samdrætti í atvinnumálum, nú síðast með ákvörðun um að leggja niður starfsstöð Marels (áður Póls) á Ísafirði og flytja starfsemina frá svæðinu. Í sögulegu samhengi hefur búseta verið valin með tilliti til atvinnu og afkomu. Búsældarlegar spildur og góðar hafnir skammt frá gjöfulum fiskimiðum, vel staðsettar til að flytja afurðir til kaupenda, hafa jafnan verið valdar til búsetu. Á síðari árum í kjölfar upptöku kvótakerfis hefur átt sér stað samþjöppun í sjávarútvegi. Aflaheimildir hafa verið fluttar frá stöðum þar sem áður var kraftmikil byggð og arðbær fiskvinnsla. Í sama mæli er sauðfjárbúskapur ekki lengur sú undirstaða lífskjara sem eitt sinn var í sveitum. Eftir standa sjávarbyggðir þar sem grundvöllur atvinnulífs, fiskurinn, er ekki lengur til staðar, og sveitir þar sem tekjur af sauðfjárbúskap duga ekki til og framleiðsla á mjólk er vart fyrir hendi en framleiðslukvóti mjólkur er að safnast á færri bú.

4.9 Með tilkomu internetsins er hugvit, sérfræðiþekking og vinnsla á upplýsingum orðin að þáttum sem eru jafn vel á heimavelli á fjarlægum svæðum sem nærri stórborg. Með háhraða internetttengingu má því ef til vill leggja grunn að slíkri starfsemi.

4.10 Ísland er ekki eina landið þar sem íbúum landsbyggðarinnar fækkar. Í nágrannalöndum okkar hafa mismunandi aðferðir verið útfærðar við að efla byggð úti á landi. Má þar m.a. nefna skattaafslætti, niðurgreiðslur til fyrirtækja, til þeirra sem þurfa að ferðast langan veg til vinnu og aðra styrki. Önnur leið sem virðist vera að skila góðum árangri í Skotlandi og Svíþjóð eru fjárveitingar til héraðsháskóla með áherslu á samvinnu við atvinnulíf og samfélag. Hér á landi gæti verið um að ræða byggðaháskóla sem hver um sig markar sitt rannsóknarsvið í tengslum við svæðisbundna styrkleika með fjar- og staðkennslu.

5. Hagstjórn

5.1 Þeir sem einhvern tíma hafa verið blankir vita að þá geta smáar fjárhæðir verið mikils virði. Þegar nóg er til af peningum virðast miklir fjármunir hins vegar skipta litlu máli. Af sömu ástæðum er skyndigróði upp á hálfa milljón að öðru jöfnu ekki eins verðmætur og skyndilegt tap sem nemur sömu fjárhæð. Ef afkoman sveiflast líður okkur þess vegna að jafnaði verr en ef hún hreyfist ekki. Þess vegna miðar góð hagstjórn að því að jafna sveiflur í tekjum og neyslu. Mikill kaupmáttur sem stafar af skammvinnri eftirspurnarþenslu getur verið dæmi um mistök í hagstjórn.

5.2 En stjórnmálamenn hugsa ekki alltaf þannig. Þeirra sjóndeildarhringur er oftar en ekki við næstu kosningar. Skammvinn eftirspurnarþensla kann að vera æskileg í þeirra augum, þó að hún þýði að kjör verði krappari síðar. Því hefur verið haldið fram að þetta sé drifkrafturinn í stóriðjustefnunni. Aðal-ávinningurinn sé ekki fullbúnar virkjanir heldur endalausar framkvæmdir sem haldi dampi á hagkerfinu.

5.3 Íhuga má hvaða hlut virkjana- og stóriðjuframkvæmdir áttu í óðaverðbólgu á áttunda og níunda áratug fyrri aldar. Einnig er það íhugunarefni að loks tókst að ráða niðurlögum verðbólgunnar til langframa á fyrri hluta tíunda áratugarins þegar hlé varð á stórvirkjunum í nokkur ár.

5.4 Kárahnjúkavirkjun olli miklu minni þenslu á vinnumarkaði en margir óttuðust. Þar veldur mestu að meirihluti vinnuaflsins er erlendur. Þenslan sem nú er hér á landi á sér fleiri skýringar en hana, til dæmis breytingar á húsnæðislánum. Virkjunin hefur samt ýtt undir eftirspurn hér á landi. Væntingarvísitölur hækkuðu um leið og ljóst var að af henni yrði. Margir Íslendingar starfa að smíði hennar og álvers á Reyðarfirði og við afleidd störf svo sem við smíði íbúðarhúsa á Reyðarfirði og á Egilsstöðum og ýmsa þjónustu sem tengist framkvæmdunum. Á sama tíma hefur Norðurál verið stækkað og stórvirkjun verið komið upp á Hellisheiði, þrátt fyrir viðvaranir um að viðbótarframkvæmdir myndu auka hagstjórnarvandann verulega.

5.5 Ekki verður komist hjá bakslagi í hagkerfinu eftir langa þenslu. Ef virkjanaframkvæmdum verður hætt núna kemur bakslagið fyrr en ella, en það verður líkast til ekki eins sársaukafullt og annars myndi verða. Aðlögunin verður samt mörgum erfið. Þannig gæti atvinnuleysi aukist og tekjur dregist saman. En jafnframt slaknar á vöxtum og raungengi krónunnar lækkar. Skilyrði skapast fyrir ný fyrirtæki sem ekki þoldu háa vexti og slæm samkeppnisskilyrði á stóriðjuskeiðinu. Þegar tímar líða eiga þessi fyrirtæki eftir að skila meiri arði inn í íslenskt hagkerfi en virkjanir og stóriðja.

6. Lokaorð

6.1 Hlutverk hins opinbera er ekki að velja út einstakar atvinnugreinar og leggja almannafé í þær til að fjölga störfum í einstökum byggðarlögum. Hlutverk hins opinbera er að efla grunngerð samfélagsins og beita almennum aðgerðum til þess að hver einstaklingur fái notið sín og einkaframtakið geti blómstrað. Bestu stjórnarhættir voru ekki hafðir að leiðarljósi við undirbúning og ákvarðanatöku tengda Kárhnjúkavirkjun. Viðhorf minnihlutans voru ekki virt né krafa um réttlæti á milli kynslóða. Auk þess fer því fjarri að sýnt hafi verið fram á að Kárahnjúkavirkjun standist arðsemiskröfur sem gera ber til fjárfestinga í atvinnulífi. Verulegt tap verður á framkvæmdinni ef reiknað er með lágmarks afgjaldi fyrir landnotkun og hóflegar bætur greiddar fyrir umhverfisspjöll. Í samningum við hið erlenda álfyrirtæki var ekki litið til þeirra verðmæta sem felast í gjaldi fyrir útblástur gróðurhúsalofttegunda. Áliðnaður er frumframleiðsla sem skilar tiltölulega litlum virðisauka inn í hagkerfið miðað við hinn mikla umhverfis- og virkjanakostnað sem leggja þarf í. Svarið við spurningunni sem lögð var fyrir í upphafi, um það hvort bygging Kárahnjúkavirkjunar og álvers á Reyðarfirði hafi verið rétt og skynsamleg, er án alls vafa nei.


Svæði

  • Facebook
  • Vimeo
  • Soundcloud
  • RSS
moya