Flýtilyklar
Tilfinningarök
Tilfinningarök
?Það sem er mikilvægast er að skynsemisrökin fái að hljóma en ekki tilfinningarökin sem hafa tilhneigingu til að vera svolítið yfirgnæfandi í aðdraganda þjóðaratkvæðagreiðslna,? sagði Auðunn Arnórsson blaðamaður og sérfræðingur um Evrópumál í viðtali við netmiðilinn Pressuna fyrir nokkrum misserum.
Tilfinningarök eru merkilegt hugtak sem árið 2009 var helguð sérstök málstofa á Hugvísindaþingi. Þar var þó lítið rætt um megineinkenni tilfinningaraka sem er að vera þar en ekki hér. Á málstofunni kom greinilega fram tregða til að hallmæla tilfinningarökum; í nútímanum njóta bæði hughyggja og jafnaðarmennska virðingar og nýlega hafa kenningar um tilfinningagreind náð vinsældum. Þannig heyrðist í ýmsum viðstöddum að tilfinningarök ættu að njóta sannmælis.
En það er aðeins í almennri umræðu að fólk er jákvætt gagnvart tilfinningarökum. Viðtalið við Auðun birtir hina algengu notkun orðsins, það er hnjóðsyrði. Tilfinningarök eru rök þess sem eru á annarri skoðun en þú. Auðunn var ekki spurður hvort hann teldi skynsemina sín megin en tilfinningarnar einkenna andstæðingana. Það þarf ekki að spyrja. Auðvitað eru það hinir sem beita tilfinningarökum, það eru alltaf hinir.
Hugtakið tilfinningarök gefur sér að til séu þeir sem annað hvort hafi engar tilfinningar eða láti þær ekki trufla sig. Rök þeirra eru óháð tilfinningu, þau eru vísindaleg og skynsamleg í senn, þau eru þær forsendur sem hver hugsandi maður hlýtur að vega og meta málefnið út frá nema ef ekki væri fyrir þessi bannsettu tilfinningarök. Orðræðan um tilfinningarök gefur sér að til sé ein skynsamleg niðurstaða sem rök leiða mann að. Tilfinningarök eru hins vegar ekki rök, þau eru andstæð rökum: mínus-rök (eða ?rök).
Það má velta fyrir sér hvort hugtakið tilfinningarök verði til þegar til stendur að gera eitthvað sem allir hafa á tilfinningunni að sé rangt. Notkun orðsins snýst að minnsta kosti um að fá fólk til að draga eigin tilfinningar í efa. Þannig er orðið tilfinningarök svipa á hina óhlýðnu. Því var aldrei ætlað að vera hlutlaust fremur en annarri hæðni. Og jafnvel þó að margir segjast hlynntir tilfinningarökum lenda þeir strax í vörn ef þeir eru sakaðir um að beita þeim.
Rök eru æðri en tilfinningarök, rétt eins og þau eru æðri en tilfinningar ? og eins og steinn trompar skæri. Hugtakið er búið til í kringum stigveldi þar sem andstæðingurinn er ævinlega óæðri. Þess vegna bendir notkun orðsins til þess að samræðum tveggja jafningja sé lokið; annar hefur lýst yfir sigri. (Á.J.)