Hver á orðið er verkefni þar sem orðræðan er skoðuð og lagfærð. Orða- og hugtakasafninu er ætlað að skemmta og fræða og draga athyglina að orðum og orðanotkun og valdi orðanna. Ekki er því um að ræða hefðbundið orðskýringasafn heldur frekar frjálslega útgáfu af orðskýringum sem eiga að sýna fram á hvernig skilgreiningarvaldið er misnotað. Hugtakalistinn er tilraun til að fletta ofan af (grafa undan og „afbyggja“) orðræðu sem setur afarkosti og selur tilbúnar pakkalausnir.
Til að byrja með verða settar upp skýringar við nokkur valin hugtök. Fólki verður jafnframt boðið að senda inn hugmyndir að skýringum til ritstjóra hugtakasafnsins og/eða koma með ábendingar um orð og hugtök sem þarfnast greiningar og „aðhlynningar“. Á þennan hátt verður leitast við að „lækna“ orðræðuna jafnóðum eða eins fjótt og unnt er hverju sinni. Þetta verður því einskonar bráðavakt orðanna!
Meðal hugtaka sem verða skýrð eru: „Fæðuöryggi“, „Útrás“, „Íslenskur hátækniiðnaður“, „Umhverfiskröfur“, „Græn orka“, „Fullkomnasta tækni“, „Sjálfbærni“, „Atvinna/atvinnuleysi“, og „Hagvöxtur“.
Irma Erlingsdóttir og Jón Karl Helgason hafa umsjón með verkefninu.