Flýtilyklar
Frá málþinginu ?Er erfðabreytt framleiðsla sjálfbær??
Frá málþinginu ?Er erfðabreytt framleiðsla sjálfbær??
Erfðabreytt byggframleiðsla á Íslandi þarf að vera einangruð og innandyra ? segja erlendu vísindamennirnir.
Á málþingi sem haldið var á Grand Hótel í síðustu viku og skipulagt var af Landvernd, Náttúrulækningafélagi Íslands, Matvæla- og veitingafélagi Íslands, Slow Food Reykjavík, Neytendasamtökunum og Vottunarstofunni Túni, kynnti María Ellingsen fyrsta ræðumanninn Dr. Doug Gurian-Sherman frá Samtökum Umhyggjusamra Vísindamanna (Union of Concerned Scientists) í Bandaríkjunum. Gurian-Sherman er menntaður plöntusjúkdómafræðingur frá Berkeleyháskóla í Kaliforníu. Hann lagði vísindaleg rök fyrir því að erfðabreyting hefur ekki verið eins árangursrík sem skyldi í að leysa vandamál iðnaðarlandbúnaðar. Ekki hafa verið þróuð erfðabreytt yrki sem nýta köfnunarefni betur, eða yrki sem þola meiri þurrka eða eru næringarríkari. Heldur hefur komið í ljós að erfðabreytt yrki þurfa meira og meira af varnarefnum og þróast hafa illgresi og skordýr sem þola varnarefni. Þetta er nú vandamál á 60 milljón ekrum (24 milljón hektörum eða 240,000 km2 ? yfir tvöföld stærð Íslands!) í Bandaríkjunum. Á sumum stöðum hefur illgresi þróað mótstöðu gegn allt að þremur eiturefnum. Aukning á nýtingu varnarefna ógnar nú tilveru margra nytsamra skordýra ? t.d. býflugna sem frjóvga 30% af nytjaplöntum.
Kynbætur ódýrari og öruggari en erfðabreytingar
Gurian-Sherman sagði einnig að erfðabreytingar séu flóknar og erfitt sé að ná fram mörgum einkennum. Þróun erfðabreyttra yrkja er miklu dýrari en venjuleg kynbæting. Það kostar að meðaltali 136 milljónir dollara (16 milljarða króna) að þróa erfðabreytt yrki en einungis 1 milljón dollara að þróa nýtt yrki með kynbætingu (120 milljónir króna). Jafnvel þar sem árangur hefur náðst með erfðabreytt yrki, leiðir ræktunin til einyrkju (monoculture). Bt-korn (með innbyggðu skordýraeitri) í Bandaríkjunum gefur 3-4% uppskeruaukningu, en Ht-korn (sem þolir arfaeitur) veitir enga aukningu á uppskeru. Síðan nýting erfðabreyttra yrkja hófst árið 1996 hefur kornuppskera aukist 28% - það er hefðbundnum aðferðum að þakka, þ.e. kynbótum og skiptiræktun (þar sem reglulega er skipst á plöntutegundum). Fyrir sojabaunir er engin auking á uppskeru erfðabreytts Ht-soja (þolir glyphosate arfaeitur). En á sama tímabili (síðan 1996) hefur sojauppskera aukist um 16% - einnig vegna hefðbundinna aðferða. Að lokum sagði Gurian-Sherman að rannsóknir og stefnumörkun þurfi að leggja áherslu á landbúnaðaraðferðir og kerfi sem leiði til sjálfbærni, fjaðurmögnunar (resilience) og aukins afraksturs. Þær aðferðir sem hafa gefist best eru vistræktun (agroecology) og kynbæting. Vistræktun byggist á því að vinna með vistkerfinu. Slík ræktun eykur köfnunarefni í jarðvegi og um leið minnkar köfnunarefnismengun í vatni um 40-70%, minnkar jarðvegseyðing, eykst upptaka kolefnis í jarðvegi, aukast jarðvegsgæði, er hafður hemill á skordýrum, eykst uppskera og arðsemi bænda.
Rannsóknir sýna skaðsemi af völdum erfðabreyttra matvæla
Næsti ræðumaður var Dr. Michael Antoniou sem kynntur var af Gunnlaugi K. Jónssyni forseta Náttúrulækningafélags Íslands. Antoniou er dósent í sameindaerfðafræði við Kings College í Læknaháskóla Lundúna og á að baki yfir 30 ár í notkun efrðatækni í rannsóknum á skipan og stýringu erfðavísa. Hann fjallaði um hvort neysla á fæðu með erfðabreyttum genum væri hættuleg. Þær erfðabreyttu fæðutegundir sem eru á markaðnum eru aðallega soja, maís og repjuolía. Allt erfðabreytt soja og sumar maístegundir þola illgresiseitrið glyphosate (Ht) (mest Roundup arfaeitrið). Margar tegundir af EB korni hafa innbyggt skordýraeitur (Bt). Sumar maístegundir eru bæði Bt og Ht-yrki. Í Bandaríkjunum eru líka seldar erfðabreyttar sykurrófur, alfalfa, grasker og papaya. Einnig er Bt og Ht bómull ræktuð víða í heiminum. OECD hafur þróað aðferðafræði til að kanna áhrif af EB fóðri á heilsu dýra sem Antoniou telur ekki gallalausar. Niðurstöður rannsókna eru skýrar að mati Antoniou. Fjöldi rannsókna sem byggðar eru á að gefa dýrum (rottum, músum, kindum og lömbum, kanínum, svínum) EB matvæli sýna skaðleg áhrif á blóðkerfið og á starfsemi nýrna, lifrar, hjarta, maga, magakirtils, eistna, ónæmiskerfis og genastarfsemi. Allar þessar niðurstöður og fleiri, með ítarlegum heimildum, er hægt að nálgast í skýrslu sem ber heitið GMO Myths and Truths. Dr. John Fagan, sem talaði næst, er einnig höfundur að þessarri skýrslu. Hún mun fljótlega koma út sem bók.
Neytendur kjósa frekar matvöru án erfðabreyttra efna
Dr. John Fagan var kynntur af Oddnýju Önnu Björnsdóttur, Framkvæmdastjóra heildsölunnar Yggdrasill. Dr Fagan er menntaður í lífefnafræði, sameindalíffræði og frumulíffræði frá Cornell háskóla í Bandaríkjunum og er stjórnandi Earth Open Source sem vinnur að því að efla samstarf um aukna sjálfbærni í fæðukeðjunni. Hann starfar einnig sem prófessor við Maharishi háskólann í Iowa, en sá háskóli beitir sér fyrir óhefðbundinni kennslu og rannsóknum. Fagan sagði frá að 64 þjóðir fari fram á að EB matvæli séu merkt og margir stórframleiðendur á matvörum, t.d. Leverhulme og Nestle, hafa aldrei leyft EB í sínum vörum. Hann benti á að hundruðir rannsókna sem birtar hafa verið í ritrýndum ritum sýni fram á heilsu- og umhverfisskaðsemi EB ræktunar og neyslu. Ríkisstjórnir Þýskalands og Frakklands og fimm annarra Evrópuþjóða hafa bannað erfðabreyttar lífverur. Meira en 200 EB-frí landsvæði eru nú í Evrópu. Ríkisstjórnir Perú, Ekvador, Rússlands, Japan, Indlands (nýtilkomið) og annarra landa í Asíu og Evrópu hafa bannað EB ræktun. EB markaðurinn er mjög takmarkaður; 95% af EB ræktun eru á 4 tegundum: soja, maís, repju og bómull; 92% af landsvæðum eru í aðeins 6 löndum: Bandaríkjunum, Kanada, Argentínu, Brasilíu, Indlandi og Kína; 28 af 195 löndunum hafa einhverja erfðabreytta ræktun. Þetta er 3,5% af landbúnaðarlandi heimsins og einungis 0,67% bænda í heiminum stunda erfðabreytta ræktun. Tvö ríki í Bandaríkjunum fara nú fram á að merkja EB vörur. Tuttugu önnur ríki stefna nú á það sama. Komið hefur í ljós í Evrópu og Bandaríkjunum að neytendur vilja frekar vörur með engum EB afurðum. Ef EB er tekið úr framleiðslu eykst salan.
Einangra þarf erfðabreytta byggframleiðslu á Íslandi og herða löggjöf
Að loknum framsöguerindum urðu líflegar umræður þar sem framsögumenn svöruðu spurningum. Þar kom meðal annars fram að þeir mæla ekki með því að virk efni í lyf eða snyrtivörur séu í matyrkjum eins og byggi. Þeir mældu með því að öll slík framleiðsa sé einangruð og innandyra og að öllum úrgangi skuli vera fargað. Þeim fannst að lagaumhverfi á Íslandi þurfi að herða þannig að snyrtivörur úr EB byggi á Íslandi séu tilhlýðilega merktar. Þeir mæltu með vistrækt til að fæða heiminn og ítrekuðu að loforð EB-iðnaðarins hafi ekki staðist. Vistrækt gefur bóndum tækifæri til að stýra sinni ræktun en EB ræktun er stýrt af stórfyrirtækjum.
Skúli Helgason fyrrverandi alþingismaður stýrði fundinum af kostgæfni.
Kristín Vala Ragnarsdóttir