Hugmyndir um jarðvarmavirkjun í Gjástykki byggja á áætlunum um hugsanlega orku sem geti orðið á bilinu 33-99 MW.
Rökin fyrir virkjuninni eru þau að samkvæmt þessu megi miða við 90 MW, að virkjunin sé eðlilegt framhald af Kröfluvirkjun og að það hljóti stuðning í einróma áliti nefndar um skipulag miðhálendisins að allt svæðið frá Bjarnarflagi um Kröflu og norður í Gjástykki verði virkjanasvæði.
Einnig er þá sagt að virkjunin myndi bæta aðgengi ferðamanna að svæðinu og að kostir hennar yrðu svipaðir varðandi aðdráttarafl fyrir ferðamenn og hafa reynst vera varðandi Kröfluvirkjun og jarðvarmavirkjanir annars staðar. Aðeins sé ætlunin að um 2% af flatarmáli Gjástykkis fari undir virkjanamannvirki.
Gegn þessu er teflt þeim rökum að verðmæti svæðisins sé mun meira með verndarnýtingu en orkunýtingu líkt og er í Yellowstone þjóðgarðinum í Bandaríkjunum, vegna þess að hvergi í heiminum sé hægt að sjá jafn vel ummerki og gögn frá Kröflueldum um rek meginlandsflekanna og sköpun Íslands. Og að sama svæði sé útvalið æfingasvæði fyrir marsfara með svipuðum tilgangi og æfingaferð tunglfaranna til Öskju var 1967.
Sagt er að þetta gefi færi á tekjum af ferðaþjónustu langt umfram þær tekjur sem geti verið af orkunýtingu. Upplifun á svæði með gufuleiðslum, vegum, borholum, háspennulínum, stöðvarhúsi og skiljuhúsi væri aldrei sú sama og á ósnortnu svæði. Tvö prósent svæðisins samsvari 2 km2 auk þess sem sjónmengun verði af mannvirkjunum um mestallt svæðið.
Rök gegn virkjun hafa einnig beinst að því að orka svæðisins falli hvorki undir hugtökin endurnýjanleg orka né sjálfbæra þróun, vegna þess að forsendurnar miðist við í hæsta lagi 50-100 ára endingartíma. Eigi orkan að endast í 250 ár (en lágmark varðandi kröfur um endurnýjanlega orku eru 200-300 ár) verður aðeins hægt að virkja brot af orku sem er áætluð við efstu mörk en gæti allt eins verið lítill eða jafnvel hverfandi hluti af því sem sett hefur verið á blað.
Mynd © Ómar Ragnarsson