Bæði Austari og Vestari Jökulsár í Skagafirði eru á lista yfir bestu flúðasiglingaár í Evrópu. Austari Jökulsá er á erfiðleikastigi 4+ af 5. Landsvirkjun áformar að virkja í Jökulsánum og með Skatastaðavirkjun D yrði reist 75 metra há stífla í Pollagili.
Flýtilyklar
Skatastaðavirkjun D

Jökulsár í Skagafirði
- Skatastaðavirkjun D
- Sjá á korti
- Sjá ljósmynd
- Verndarflokkur
-
Jökulsár í Skagafirði
Landsvirkjun áformar að virkja í Jökulsánum í Skagafirði. Í 3. áfanga rammaáætlunar eru þrjár virkjunarhugmyndir á svæðinu, þ.e. Skatastaðavirkjun C, Skatastaðavirkjun D og Villinganesvirkjun, en þær falla nú allar í verndarflokk.
Jökulsárnar í Skagafirði og vatnasvið þeirra eru taldar meðal verðmætustu svæða landsins þegar kemur að menningarminjum, jarðminjum, vatnafari, verðmætum tegundum lífvera, vistkerfum og jarðvegi.
Með virkjunum í Jökulsánum í Skagafirði er votlendið á láglendi Skagafjarðar í hættu. Votlendið er myndað úr framburði jökulvatnanna sem smám saman bera botnskrið, sand og aur til sjávar.
Mynd © Hlynur Stefánsson
-
Lífríki
Skatastaðavirkjanir (C og D) þrengja verulega að göngumynstri víðförulla sjógöngustofna urriða og einkum bleikju samkvæmt rannsóknum Veiðimálastofnunar. Búsvæðum fágætra, staðbundinna bleikjustofna í straumvötnum á hálendinu yrði raskað.
-
Efnahagur
Virkjanir í Jökulsánum í Skagafirði gætu haft slæm áhrif á atvinnulíf í héraðinu, sérstaklega yrði ferðaþjónusta fyrir þungu höggi og sumar greinar hennar leggðust af, svo sem hinar geysivinsælu og sívaxandi flúðasiglingar á jökulsánum.
Austari Jökulsá er ein besta flúðasiglingaá í Evrópu en hún er á erfiðleikastigi 4+ af 5. Vestari áin er einnig mikilvæg í ferðaþjónustu en hún tilheyrir 3. flokki flúðasiglingaáa sem merkir að hún hentar vel fyrir alla aldurshópa.
Fjöldi manna hefur atvinnu af flúðasiglingunum.
-
Virkjunarhugmyndir
Áform Landsvirkjunar um Skatastaðavirkjun D fela í sér 156 MW virkjun, með veitu frá Fossá og Hölkná, Nýjabæjarfjalli og Hraunþúfuveitu. Austari Jökulsá væri þá stífluð í Pollagili með um 76 m hárri stíflu.
Verður ekki reist ef Skatastaðavirkjun C verður að veruleika.
AÐALATRIÐI UM SVÆÐIÐ
- Jökulsárnar í Skagafirði eru á lista yfir bestu flúðasiglingaár í Evrópu.
- Jökulsárnar í Skagafirði og vatnasvið þeirra eru taldar meðal verðmætustu svæða landsins þegar kemur að menningarminjum, jarðminjum, vatnafari, verðmætum tegundum lífvera, vistkerfum og jarðvegi.
- Með virkjunum yrði votlendið á láglendi Skagafjarðar í hættu.
- Með Skatastaðavirkjun yrði búsvæðum fágætra, staðbundinna bleikjustofna í straumvötnum á hálendinu raskað.
- Virkjanir í Jökulsánum í Skagafirði gætu haft slæm áhrif á atvinnulíf í héraðinu, sérstaklega yrði ferðaþjónusta fyrir þungu höggi og sumar greinar hennar leggðust af.