Hengilssvæðið er með stærstu jarðhitasvæðum á landinu, um 100 km² að stærð. Það er þó ekki allt einn og sami suðupotturinn, heldur samanstendur það af Hveragerðiseldstöðinni (Grændalur), Ölkelduhálsi og jarðhitasvæðinu í Henglafjöllum.
Þegar hefur talsvert verið virkjað á Hengilssvæðinu, þar á meðal virkjanir í Hengli og á Nesjavöllum, en í 2. áfanga rammaáætlunar falla virkjunarhugmyndirnar Grændalur og Bitruvirkjun í verndarflokk, Gráuhnúkar, Hellisheiði, Hverahlíð og Meitillinn í nýtingarflokk, og Innstidalur, Ölfusdalur og Þverárdalur í biðflokk.
Kísilhverirnir í Hveragerði og á Reykjum eru einkennandi fyrir Grændalssvæðið, ásamt hinum fjölmörgu laugum sem spretta fram úr berghlaupum í dalnum. Gufuhverir finnast víða og fylgja oft sprungum tengdum Suðurlandsskjálftum.
Við Ölkelduháls er mikill jarðhiti og fjölbreyttur. Þar eru margir stórir leirhverir, leirugir vatnshverir og víða eru gufuaugu. Nokkur ummerki eru um öflugar gufusprengingar. Útfellingar eru einkum hverasölt og brennisteinn. Við Klambragil, innst í Reykjadal eru öflugir sjóðandi vatnshverir. Frá þeim rennur heitur lækur sem fljótlega blandast köldu vatni og verður þar hin ágætasta aðstaða til böðunar í Reykjadalsá.
Vinsælar gönguleiðir liggja um svæðið og stór hluti þess er á náttúruminjaskrá, þ.e. vatnasvið Grændals, Reykjadals og Hengladala. Um svæðið liggja nokkrar vinsælar gönguleiðir.
Mynd © Mats Wibe Lund