Fögruhverir við Hágöngur fóru á sínum tíma undir miðlunarlón fyrir virkjanir á Þjórsár- og Tungnaársvæðinu. Virkjunarhugmyndirnar sem nú eru uppi á Hágöngusvæðinu eru í jaðri Vatnajökulsþjóðgarðs og á miðju hálendinu. Þær fela í sér mun meira rask en fyrri stíflumannvirki og skemmdir og tilheyrandi 60 km háspennulína myndi gjörbreyta upplifun af svæðinu.
Flýtilyklar
Hágönguvirkjun

Hágöngusvæði
- Hágönguvirkjun
- Sjá á korti
- Sjá ljósmynd
- Biðflokkur
-
Hágöngur og Skrokkalda
Stíflumannvirki voru byggð á Hágöngusvæðinu árið 1998 til að mynda miðlunarlón fyrir virkjanirnar á Þjórsár- og Tungnaársvæðinu. Við það fóru 37 km² af fögru landsvæði undir vatn, þar á meðal jarðhitasvæði. Þá var vegslóði lagður í Sveðjuhrauni og boruð þar djúp hola í tilraunaskyni í tengslum við hugmyndir um jarðvarmavirkjun.
Umrætt svæði er nær því að vera í miðju hálendisins og uppbygging mannvirkja þar með tilheyrandi virkjanabyggingum, vegagerð og línu- og pípulögnum myndi höggva stórt skarð í hjarta hálendisvíðerna landsins. Þrátt fyrir byggingu Hágöngustíflu og skemmdir sem unnar voru á jarðhitasvæðum í lónstæðinu eru sýnileg áhrif vegna þessara mannvirkja með minnsta móti. Kemur þar m.a. til að ekki var byggður upp vegur frá Sprengisandsleið að stíflumannvirkjunum eins og til stóð. Í staðinn var notast meira eða minna við gamalt vegstæði.
Líkt og Hálslón, Ufsarlón og Kelduárlón myndu virkjanir við Hágöngur og Skrökköldu þrengja enn frekar að Vatnajökulsþjóðgarði og rýra gildi hans. Ef Hágöngulón hefði ekki verið komið fyrir stofnun þjóðgarðsins hefðu eðlileg mörk hans verið vestan við Hágöngur.
Skrokkölduvirkjun og Hágönguvirkjun á miðhálendi Íslands eru dæmi um virkjanir sem myndu skerða gríðarlega stór og dýrmæt víðerni vestan Vatnajökuls og skiptir engu hvort þær eru einar og sér eða báðar saman. Virkjanir myndu eyðileggja fyrir fullt og allt svæðið austan Hágangna. Ennfremur er Hágöngusvæðið ekki aðeins á hinum virka, jarðfræðilega rekás heldur er það einnig á einu virkasta eldsumbrotabelti jarðar í nánasta umhverfi heita reitsins undir Íslandi. Verndargildi þess er því mikið.
-
Umhverfi
Lítt þekkt háhitasvæði er að finna á Hágöngusvæðinu, en það er nú að hluta til undir Hágöngulóni. Yfirborðsjarðhita var aðallega að finna á þremur stöðum en tveir þeirra lentu undir vatni er Hágöngulón var fyllt. Þriðji staðurinn er vestast í Sveðjuhrauni. Á svæðinu virðist vera megineldstöð og er ekki ólíklegt að í henni sé askja þótt hún sjáist ekki.
Hágöngur eru um 40 km norðaustur af Þórisvatni.
-
Virkjunarhugmyndir
Hugmyndir eru um að virkja jarðhitann á svæðinu og gert er ráð fyrir að Hágönguvirkjun myndi fela í sér 150 MW af afli.
Leggja þyrfti háspennulínu frá virkjuninni, væntanlega að landskerfi við Vatnsfellsvirkjun, um 60 km vegalengd.
Þá er þess hvergi getið hvað á að gera við heitt og efnamengað affallsvatn virkjunarinnar því engin viðunandi lausn er ennþá fundin á þeim vanda.
AÐALATRIÐI UM SVÆÐIÐ
- Virkjunarhugmyndir á svæðinu eru í jaðri Vatnajökulsþjóðgarðs og á miðju hálendinu.
- Gert er ráð fyrir 60 km háspennulínu inn á svæðið sem myndi gjörbreyta upplifun af svæðinu.
- Virkjanabyggingar, vegagerð og línu- og pípulagnir myndu höggva stórt skarð í hjarta hálendisvíðerna landsins.
- Virkjanir myndu þrengja enn frekar að Vatnajökulsþjóðgarði og rýra gildi hans.
- Virkjanir myndu skerða gríðarlega stór og dýrmæt víðerni vestan Vatnajökuls.
- Hvergi er getið hvað á að gera við heitt og efnamengað affallsvatn fyrirhugaðrar jarðvarmavirkjunarinnar.