Flýtilyklar
Sjötta ár Framtíðarlandsins
Sjötta ár Framtíðarlandsins
Framtíðarlandið var stofnað fyrir sex árum, eða árið 2006 þegar umræðan um Kárahnjúkavirkjun stóð sem hæst. Stjórnmálamenn þess tíma gerðu afleitan samning við Alcoa ? en það kom ekki í veg fyrir að menn voru tilbúnir að gera aðra eins samninga um byggingu álvers í Helguvík, Straumsvík og Húsavík. Þegar litið er til baka er engu líkara en þjóðin hafi sturlast. Samtímis horfðu menn upp á eyðileggingu á nánast öllum háhitasvæðum á Suðvesturhorninu, öllum á Norðurlandi, ásókn var í rannsóknarleyfi á Torfajökulssvæðinu og Kerlingarfjöllum og Þjórsárver voru í beinni hættu. Allt þetta gerðist á sama tíma og menn horfðu upp á ömurlega eyðileggingu á víðernunum norðan Vatnajökuls. Eyðileggingu á Kringilsárrana, Töfrafossi ? að ógleymdu Lagarfljóti ? þar sem lífríkið er nú dautt. Með eyðileggingunni þar má sjá í sinni tærustu mynd, hvernig mannkynið skiptir út dýrum og dýrategundum, vistkerfum, líffræðilegri fjölbreytni í staðinn fyrir dauða vöru, sem í mörgum tilfellum er offramleidd eða sóað í einnota vörur. Það er stefna sem jörðin þolir ekki til lengdar, þótt hún færi mörgum hagsæld til skamms tíma.
Framtíðarlandið er hluti af breiðri fylkingu fólks sem hefur barist fyrir náttúruvernd á Íslandi á umliðnum árum. Samtökin sem hafa komið fram fylla annan eða þriðja tuginn og í fyrstu sýn virðist þetta hálfgert kaos af samtökum: Sól í Straumi, Sól á Suðurlandi, NSÍ, Landvernd, Sól í Hvalfirði, Náttúruvaktin, Saving Iceland, Hætta hópurinn, Náttúra og hvað þessi samtök heita öll. En fjöldi samtaka er ekki til marks um sundurleitni, margir og jafnvel flestir í þessum samtökum starfa eða hafa náin tengsl við fólk í öðrum hópum, þeir renna saman, sameinast, tengjast, sofna, lognast út af til þess eins að fyrrum félagar næri ný samtök. Það er rannsóknarefni fyrir mannfræðinga að átta sig á því hvort þessi fjöldi sé styrkleika- eða veikleikamerki, að við skulum ekki eiga ein risastór samtök. En ef litið er yfir sviðið má efa að ein samtök hefðu nokkru sinni getað haldið uppi öllu því starfi sem menn hafa innt af hendi. Hundruð manna hafa skrifað blaðagreinar, haldið ljósmyndasýningar, listsýningar, farið með þúsundir manna í hálendisferðir, kvikmyndir hafa verið gerðar, beinar aðgerðir og eins manns herdeildir eins og Guðmundur Páll og Ómar Ragnarsson hafa lagt á sig gríðarlega vinnu og erfiði. Þessi upptalning er ekki tæmandi ? ábendingar um þá sem vantar á listann eru vel þegnar.
Framtíðarlandið vildi prófa nýjar baráttuaðferðir, reyna að benda á aðrar leiðir, fá annað fólk að borðinu, breikka orðræðuna og höfða til fólks sem annars lét umhverfismál sig lítils varða. Stóriðjustefnan kom niður á litlum sprotafyrirtækjum, ferðaþjónustu og útflutningsgreinum. Mörgum þótti sárt að sjá tækifæri glatast, um leið og landið var eyðilagt og til þess að svara hinni heimskulegu spurningu: Hvað á að gera í staðinn, vildu menn þróa framtíðarsýn og atvinnustefnu sem væri í sátt við land og þjóð. Úr varð merkilegur samruni skapandi greina og náttúruverndarfólks sem sá fyrir sér atvinnustefnu á Íslandi þar sem hátækni, menntun og þekking gæti skapað margfalt meiri verðmæti en þær fórnir sem voru fyrirhugaðar.
Náttúruverndarsinnar hafa staðið frammi fyrir bráðum vanda þegar eyðilegging á nýjum svæðum stendur fyrir dyrum. Ósnortin svæði eru eðlilega fáfarin og fáum kunnug. Það skipti máli að fá ljósmyndir af svæðum, að fara með fólk á staðinn til að skynja á eigin skinni. Að miðla upplýsingum um þau svæði sem yrði raskað í framtíðinni. Framtíðarlandið lét þróa Náttúrukortið, það hefur verið aðgengilegt um nokkurt skeið en nú á að blása í það nýju lífi með uppfærslu og nýjum upplýsingum.
--------------------------------------------------------------------------------------------------
Álfyrirtækin sjá fyrir sér að álframleiðsla aukist um 20 milljón tonn fyrir árið 2020 ? fari upp í 60 milljón tonna ársframleiðslu. Til að auka álframleiðslu heimsins svo mikið þarf að byggja um 100 Kárahnjúkavirkjanir ? eða virkja sem samsvarar 65.000 megavöttum. Þegar heiminum ætti að vera ljóst að nú sé tími til að hægja ferðina, að menga minna, nota hráefni betur, þegar framundan er orkukreppa um allan heim sjá menn ennþá fyrir sér 50% vöxt á einum áratug. Það er ljóst að það er afar einföld ákvörðun að virkja Ísland eins og það leggur sig. Það er ekkert mál að gera það, markaðurinn er fyrir hendi, kaupendur fyrir hendi. Það myndi hins vegar ekki auka verga landshamingju.
Áliðnaðurinn er orðinn helsta ógnin sem steðjar að þeim óröskuðu vötnum sem eftir eru í heiminum. Það er ljóst að öll ,,hrein orka? Íslands gæti auðveldlega horfið ofan í slíka hít. Alcoa er núna á Grænlandi ? að undirbúa svipað ferli og á Austurlandi. Vandinn er sá að á meðan framkvæmdin á Íslandi nam um 20% af þjóðarframleiðslu og olli ofþenslu sem varð kveikjan að hruni, þá væri framkvæmdin á Grænlandi um 250% af þjóðarframleiðslu. Framtíðarlandið þarf að tengja sig út í heim ? það tók þátt í að fá Vandana Shiva til landsins og Samarendra Das ? en við höfum þörf á miklu öflugra tengslaneti.
Ísland hefur þegar virkjað fimm sinnum meira en þjóðin sjálf torgar. Það eru engar öfgar að líta svo á að núna sé aðalatriðið að nýta vel það sem þegar hefur verið virkjað, jafnvel leita leiða til að lagfæra eyðileggingu eins og í tilfelli Lagarfljótsins þar sem eðlilegt væri að minnka vatnsmagn og grugg sem rennur í fljótið. Nú standa yfir umræður um rammaáætlun. Í drögum að henni má sjá marga varnarsigra, en hins vegar má spyrja sig ? hver skynjar það sem ,,ósigur? ? ef Langisjór, Torfajökull eru látin í friði? Það má líka spyrja sig ? hversu hæf er ein kynslóð manna sem er fædd ca. 1945 ? 1975 ? til að vega og meta og skipta upp landinu eins og köku? Um daginn hitti ég hóp af krökkum í MH sem höfðu horft á Draumalandið ? þau voru sjö ára þegar ákvörðun var tekin um Kárahnjúkavirkjun. Svona líður tíminn hratt ? núna eru þau að verða kjósendur ? en þau hafa ekkert að segja um þessa stóru sneið af landinu ? og það má velta fyrir sér hvort einni kynslóð sé á sama hátt stætt að ráðstafa því öllu.
Umhverfisumræðan á Íslandi þarf að dýpka. Varnarbaráttan hefur verið slík að önnur mál hafa vart komist að, sá sem les örnefnin hér að ofan ætti að sjá það í hendi sér. Baráttan þarf að ná út fyrir álið og þarf að snerta okkar eigin lífsgildi og neyslu, endurvinnslu, samgöngur, skipulag og umfram allt sjálfbærni. Baráttan þarf líka að efla gegnsæið til að tryggja að hráefni sem berst til Íslands sé ekki grundvallað á rányrkju og mannréttindabrotum.
Það bendir allt til þess að loftslagsmálin verði sífellt stærri hluti í umhverfisumræðunni, áhrif þeirra breytinga eru þegar greinileg í gróðurfari, fuglalífi og fiskgengd á landinu og jöklarnir hopa sem aldrei fyrr. Íslendingar eiga ekki að vera fastir í hjólförum iðnbyltingar, það er mikilvægt að menn sætti sig við að fá bara að virkja fimm sinnum meira en aðrir ? og reyni að skapa aðra hluti og búa í sátt við þetta fallega land.
Andri Snær Magnason