Flýtilyklar
Sjálfbær orka
Sjálfbær orka
Þrjú hugtök eru jafnan notuð um orku sem talin er umhverfisvæn. Orka er ýmist sögð vera sjálfbær, endurnýjanleg eða græn. Deila má um skilgreingar þessara hugtaka og ljóst er að þau skarast mikið.
Sjálfbær orkuvinnsla er orkuvinnsla sem mætir þörfum okkar nú um stundir án þess að skerða möguleika komandi kynslóða á að mæta orkuþörf sinni. Hugtakið endurnýjanleg orka er náskylt þessu.
Endurnýjanleg orkuvinnsla er alltaf sjálfbær en sjálfbær orkuvinnsla þarf ekki að vera endurnýjanleg. Til dæmis væri það sjálfbær orkuvinnsla að brenna kolum til að geta byggt upp sólarorku-framleiðslukerfi sem tæki við og myndi fullnægja allri orkuþörf komandi kynslóða. Það að brenna kolum er hins vegar aldrei endurnýjanleg orkuvinnsla sama í hvaða tilgangi og undir hvaða skipulagi það er gert.
Græn orka er orka sem framleidd er með aðferðum sem valda litlum sem engum umhverfisspjöllum. Mengun frá slíkri framleiðslu er hverfandi og umfang og umhverfisáhrif lítil. Sjálbær og endurnýjanleg orkuvinnsla þarf alls ekki að vera græn. Orkuver sem nýta sjálfbæra og/eða endurnýjanlega orkugjafa hafa oft mikil áhrif á umhverfi og náttúrurfar. Nefna má nokkur dæmi um sjálfbæra orkuframleiðslu:
Sólarorka og vindorka: Nýting sólar- og vindorku eru sennilega þær orkuframleiðsluaðferðir sem talist geta að fullu sjálfbærar. Gallinn er bara sá að slík orkuvinnsla er enn dýrari og alveg uppá veðurfar komin og í tilfelli sólarorku dagsbirtu einnig.
Vatnsaflsvirkjanir: Nýting fallvatna er í raun óbein beislun sólarorku og er að því leyti sjálfbær. (Sólin knýr veðrakerfi jarðarinnar sem flytja raka úr höfunum upp á land. Stöðuorka vatnsins er svo nýtt þegar það streymir aftur til hafsins.) Hin raunverulega sjálfbærni orkuvinnslunnar ræðst hins vegar af gerð og eðli vantsaflsvirkjunarinnar. Flestar stærri ár bera með sér mikið set. Dæmi um árset er framburður jökuláa. Set þetta sekkur að hluta til botns í uppistöðulónum og skerðir þannig með tímanum miðlunargetu lónanna. Slíkt er mjög bagalegt fyrir rekstur virkjunar ef miklar árstíðar og/eða dægursveiflur eru í rennsli ánna. Virkjanir sem ganga úr sér eða minnka mjög í framleiðslugetu vegna setsöfnunar í uppistöðulónum geta varla talist sjálfbærar.
Jarðhitavinnsla: Hugtakið sjálfbærni er ekki enn að fullu skilgreint í jarðhitavinnslu. Það eru tveir eðliseiginleikar sem menn líta til í þessu samhengi ? þ.e. hiti og þrýstingur. Við jarðhitavinnslu má gera ráð fyrir því að hitinn lækki og þrýstingurinn minnki. Þrýstifall og lækkun hita fer eftir því hvernig jarðhitavinnslunni er háttað. Sjálfbær vinnsla gengur útá að vinna þannig úr svæðinu að þrýstingur og hiti nái ákveðnu jafnvægi og falli ekki eftir það. Stundum er talað um ágenga jarðhitavinnslu sem beinlínis gengur útá að ganga á forðann í jarðhitakerfinu þannig að þrýstingur og jafnvel hiti falli á rekstrartíma virkjunarinnar niður í það að það borgi sig að hvíla svæðið og láta það jafna sig. Slík nýtni getur varla talist sjálfbær. Það sem gerir hugtakið sjálfbærni í jarðhitavinnslu flókið er að náttúrulega eru jarðhitasvæði mjög breytileg. Þekkt er að jarðhitavirkni hefur aukist mjög í jarðskjálftum og eldsumbrotum. (G.G.)